Skoðun

Milljarðar evra streyma enn til Pútíns

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Milljarðar evra streyma enn í fjárhirzlur Rússlands frá ríkjum Evrópusambandsins fyrir rússneska olíu og gas þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða til þess að draga úr í þeim efnum í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Vonir standa til þess að endanlega verði hægt að skrúfa fyrir kaupin í byrjun árs 2028 samþykki ríkin það. Eftir tvö og hálft ár og sex árum eftir innrásina. Þá hefur sambandið viðurkennt að ríki þess hafi með kaupunum fjármagnað hernað Valdimírs Pútíns.

Fram kom á fréttavef brezka ríkisútvarpsins BBC síðastliðinn laugardag að frá innrás rússneska hersins í Úkraínu í lok febrúar 2022 hefðu ríki sambandsins varið 210 milljörðum evra til kaupa á rússneskri olíu og gasi samkvæmt rannsókn hugveitunnar Centre for Research on Energy and Clean Air eða sem nemur rúmum 30 þúsund milljörðum íslenzkra króna. Ljóst væri að stór hluti þess fjármagns hefði verið notaður til þess að fjármagna innrás rússneska hersins í Úkraínu.

Fréttamaðurinn Steve Sedgwick fjallaði um það á vef fréttastöðvarinnar CNBC 11. september að þrátt fyrir tal forystumanna Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gagnvart rússneskum stjórnvöldum ættu sér enn stað viðskipti á milli ríkja sambandsins og Rússlands upp á tugi milljarða evra á ári. Ríki þess hefðu til að mynda verið stærsti kaupandi rússnesks gass í fljótandi formi undanfarin ár og á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefðu kaup þeirra farið vaxandi í evrum talið.

Fjallað var um málið í frétt brezka dagblaðsins Guardian 24. febrúar síðastliðinn þar sem fram kom að á síðasta ári hefðu ríki Evrópusambandsins greitt um 22 milljarða evra (rúmlega 3.000 milljarða króna) fyrir rússneska olíu og gas samkvæmt rannsókn Centre for Research on Energy and Clean Air. Á sama tíma hefðu ríki sambandsins veitt Úkraínu fjárhagslegan stuðning upp á 19 milljarða evra miðað við rannsókn hugveitunnar Kiel Institut für Weltwirtschaft.

„Kaup á rússnesku jarðefnaeldsneyti eru, hreint út sagt, á við það að veita rússneskum stjórnvöldum fjarhagsaðstoð og gera þeim kleift að hrinda innrásinni í framkvæmd. Framganga sem verður að stöðva strax, ekki aðeins til þess að tryggja framtíð Úkraínu heldur einnig orkuöryggi Evrópusambandsins,“ er haft eftir Vaibhav Raghunandan, sérfræðingi hjá Centre for Research on Energy and Clean Air og einum af þeim sem stóðu að rannsókninni, í frétt Guardian.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa þrýst á Evrópusambandið að flýta fyrir því að ríki þess verði ekki lengur háð rússneskri orku en forystumenn sambandsins telja það ekki raunhæft fyrr en í byrjun 2028 sem fyrr segir. Ríki Evrópusambandsins hafa áratugum saman keypt rússneska orku og voru lengi vel stærsti kaupandi hennar en helztu orkufyrirtæki Rússlands eru í ríkiseigu og tekjur þeirra renna í ríkissjóð landsins. Þá er útflutningur á orku helzta tekjulind hans.

Forystumenn Evrópusambandsins hafa viðurkennt að með kaupunum á rússneskri orku í áratugi hafi hernaður Rússlands verið fjármagnaður. „Þegar Rússar réðust inn á Krímskaga töluðum við um að við þyrftum að draga úr því hversu háð við værum rússnesku gasi,“ sagði Josep Borrell, þáverandi utanríkisráðherra sambandsins, í ræðu 9. marz 2022. Þvert á móti hefðu ríkin keypt enn meiri orku frá Rússlandi. Þetta er fólkið sem sumir telja treystandi fyrir öryggi Íslands.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×