Körfubolti

Stórleikur Porzingis dugði Lettum skammt

Siggeir Ævarsson skrifar
NBA leikmennirnir Jonas Valanciunas og Kristaps Porzingis takast á undir körfunni.
NBA leikmennirnir Jonas Valanciunas og Kristaps Porzingis takast á undir körfunni. Mynd FIBA

Litháen er komið í 8-liða úrslit á EM í körfubolta eftir 88-79 sigur á Lettlandi. Kristaps Porzingis fór mikinn í liði Letta og skoraði 34 stig en það dugði skammt.

Sóknarleikur Lettlands eftir því sem leið á leikinn var afar óskilvirkur og handahófskenndur. Í hvert sinn sem það leit út fyrir að liðið ætlaði að minnka muninn og gera hann spennandi kom ótímabært skot eða léleg sending.

Örlítið agaðari leikur hjá Lettum hefði sennilega skilað þeim í jafnan og spennandi leik í lokin en þess í stað voru þeir að elta allan tímann, temmilega mörgum stigum á eftir Litháen.

Stigahæstur í liði Litháen var Arnas Velicka sem átti frábæran leik. Skoraði 21 stig og gaf tólf stoðsendingar. NBA leikmaðurinn Jonas Valanciunas hafði hægt um sig í dag og skoraði níu stig á níu mínútum.

Kristaps Porzingis var langstigahæstur í liði Lettlands með 34 stig og bætti við 19 fráköstum. Hann kláraði leikinn þó með tveimur klaufalegum villum og fór af velli með fimm villur þegar 20 sekúndur voru eftir. Davis Bertans, sem yfirgaf NBA deildina 2024 fyrir gull og græna skóga í Dubai, átti ekki góðan leik í liði Lettlands, skilaði þremur stigum og fimm villum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×