Upp­gjörið: Valur - FH 2-3 | Hafn­firðingar í úr­slit í fyrsta sinn

Hörður Unnsteinsson skrifar
FH-ingar fagna.
FH-ingar fagna. Vísir/ÓskarÓ

FH eru komið í bikarúrslit í fyrsta sinn í sögu sinni eftir hádramatískan 3-2 sigur á Valskonum á Hlíðarenda. 

Hetja FH liðsins var Margrét Brynja Kristinsdóttir sem kom inn á í hálfleik framlengingar og skoraði sigurmark leiksins þegar aðeins mínúta var eftir. Margrét Brynja er búin að vera frá vegna meiðsla og hafði ekki spilað fótboltaleik í rúma þrjá mánuði. 

Leikurinn hófst með miklum látum og Valskonur voru komnar yfir eftir aðeins 70 sekúndna leik. Boltinn barst til Elínar Mettu Jenssen rétt fyrir utan vítateig FH og hún náði þéttingsföstu skoti á markið sem Macy Elisabeth náði ekki að handsama í markinu. Klaufalegt hjá Macy sem var að spila sinn annan leik fyrir FH.

Elín Metta kom Val yfir.Vísir/Diego

Það tók FH konur aðeins tvær mínútur að svara fyrir sig. Katla María Þórðardóttir átti þá langa sendingu úr öftustu línu FH sem sveif yfir alla varnarlínu Valsliðsins og inn á Elísu Lönu Sigurjónsdóttir sem hafði nægan tíma til að hugsa sig um áður en hún lagði boltann snyrtilega fram hjá Tinnu Brá í markinu. 1-1 eftir 4 mínútna leik. 

FH-ingar fagna.Vísir/ÓskarÓ

Fjörið hélt áfram næstu mínútur og bæði lið létu tréverkið finna fyrir því. Elín Metta átti skalla í þverslánna eftir hornspyrnu á 10. mínútu og nokkrum mínútum síðar slapp Thelma Lóa Hermannsdóttir ein í gegnum vörn Vals en stöngin (og svo síðar flagg aðstoðardómara) björguðu Valsstelpum. 

FH liðið tóku svo öll völd á vellinum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, voru mun meira með boltann og áttu nokkrar álitlegar sóknir. Ein þeirra skilaði marki á 29. mínútu leiksins þegar Thelma Lóa tók hornspyrnu frá vinstri sem fór beint á hausinn á Kötlu Maríu Þórðardóttir. Katla skallaði boltann í þverslánna en frákastið fór beint til Maya Lauren Hansen á markteig sem skallaði boltann í þverslánna og inn. 

Úr leiknum.Vísir/Diego

FH hefði svo átt að bæta við þriðja markinu 10 mínútum síðar þegar Thelma Karen sendi frábæra fyrirgjöf á nöfnu sína Thelmu Lóu sem var með markið galopið fyrir framan sig en tókst á einhvern ótrúlegan hátt að renna á boltanum og fá dæmda á sig hendi, aðeins sentimetrum áður en að boltinn fór yfir línuna. Staðan í hálfleik 2-1 fyrir gestina. 

Í síðari hálfleiknum var mikið jafnræði á milli liðana. FH liðið byrjaði betur og átti þrjá góðar marktilraunir á fyrstu 10 mínútum hálfleiksins sem þær nýttu sér ekki. 

Valskonur jöfnuðu svo leikinn á 81. Mínútu þegar Elísa Viðarsdóttir setti boltann í netið eftir fyrirgjöf Ragnheiðar Jónsdóttir. Macy Elisabeth í markinu missti boltann úr höndum sér og eftirleikurinn auðveldur fyrir Elísu. Það þurfti því að framlengja leikinn. 

Elísa Viðarsdóttir jafnaði metin.Vísir/ÓskarÓ

Bæði lið voru orðin ansi þreytt í framlengingunni og fjörið sem hafði einkennt leikinn fór dvínandi. Bæði lið gerðu breytingar á liðum sínum og komu inn á með ferskar lappir, en ein skipting átti þó eftir að reynast mikilvægari en aðrar - innkoma Margrétar Brynju Kristinsdóttir um miðbik framlengingarinnar. 

Margrét Brynja hefur glímt við meiðsli síðustu mánuði og hafði ekki spilað leik síðan 27. apríl síðastliðinn. Hún reyndist hetja FH liðsins á 119. mínútu þegar hún stýrði frábærri fyrirgjöf Thelmu Karenar í fjærhornið við gríðarlega fögnuð þeirra fjölmörgu stuðningsmanna FH liðsins sem voru mætt á Hlíðarenda. 

3-2 sigur FH staðreynd og þær eru á leiðinni í bikarúrslit í fyrsta sinn þar sem þær mæta annað hvort ÍBV eða Breiðablik á nýju grasi Laugardalsvallar þann 16. ágúst næstkomandi.

FH er komið í úrslit.Vísir/ÓskarÓ

Tengdar fréttir

FH konur ætla að skrifa söguna í kvöld

FH-ingar geta í kvöld eignast lið í bikarúrslitaleik kvenna í fyrsta sinn í sögunni þegar FH liðið heimsækir bikarmeistara Vals á Hlíðarenda í undanúrslitaleik Mjólkurbikars kvenna.

„Ætlum að fara þarna og sækja þennan bikar“

FH komst í kvöld í bikarúrslit kvenna í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 2-3 dramatískan sigur á Valskonum á Hlíðarenda, þar sem sigurmarkið kom ekki fyrr enn á lokamínútu framlengingar þegar varamaðurinn Margrét Brynja Kristjánsdóttir skoraði laglegt mark. Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH liðsins var stórkostleg í kvöld og stýrði vörn sinna kvenna með stakri prýði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira