Skoðun

Landið talar

Davíð Arnar Oddgeirsson skrifar

Við skulum hafa eitt á hreinu: Það er ekki raunverulegur orkuskortur á Íslandi og það verður Aldrei raunverulegur orkuskortur á Íslandi.

Við búum þegar við eitt hreinasta og sjálfbærasta raforkukerfi í heimi. Vatnsafl og jarðhiti knýja heimilin okkar, stofnanir og fyrirtæki. Við höfum nóg af orku til að mæta daglegum þörfum samfélagsins.

Það sem nú er kallað „orkuskortur“ er í raun eftirspurn sem stafar af fjárfestingum, gagnaverum og iðnaðaruppbyggingu. Áætlun um vöxt sem krefst ákveðinnar fórnar sem ég get lofað ykkur að við erum ekki tilbúin í að gefa upp.

Eins og allir vita þá er ekki verið að virkja fyrir fólkið í landinu heldur fyrir hagnað lítils hóp einstaklinga sem hefur tapað allri tengingu við sál sína og náttúru.

Nýja krafan um vindorkuver snýst um fjárfestingar, stórfyrirtæki og útflutning á orku. Og með því er verið að fórna því heilagasta: náttúrunni sjálfri.

Við erum að missa það sem engin tækninýjung getur skapað:

Fjöllin. Þögnina. Fuglinn.

Vindur án vélahljóða. Friður, ró og fegurð.

Það sem kallast „vistvænt“ er í raun ný tegund mengunar.

Við verðum að hætta að kalla allt sem ekki mengar beint „vistvænt“.

Það er ekkert vistvænt við að sprengja berg eða raska lífríki með háspennulínum, vegum og myllugörðum.

Svo henda þau fram „græn framtíð“ sem er ekkert nema nýtt form af mengun. Orkumengun. Sjónmengun. Hljóðmengun. Andleg mengun.

Það er ekkert grænt við það.

Ekki láta blekkjast af fagorðum. Þau bjuggu til vandamálið og hönnuðu lausnina. Þeir sem vilja, sjá augljóslega hvað raunverulega stendur til.

Mér verður reglulega hugsað til Avatar og þeirra áhrifa sem sú mynd hafði á fólk.

Þar var þjóð sem lifði í tengslum við náttúruna, við anda og orku lífsins.

Svo kom hvíti gráðugi maðurinn og vildi ná í orku og málma með tilheyrandi gróða. Flestir hafa nú séð myndina og ég efast um að margir voru að hvetja hvíta kallinn áfram í sinum aðgerðum, en hér erum við.

Þetta er að raungerast núna, í alvöru. Ekki á Pandoru, heldur í heiðum Íslands. Við fjöllin, við vötnin, þar sem landið andar og talar hvað mest.

Ef þessi svokölluðu „orkuskipti“ fela í sér að við töpum tengslunum við náttúruna og náttúran missir upprunalega tón sinn, þá erum við búin að tapa leiknum.

Hvað viljum við skilja eftir fyrir börnin okkar?

Hvort er mikilvægara, að barnið þitt geti hlaðið iPadinn sinn enn hraðar eða að þú getir gengið með því í ósnortna náttúru? Í alvöru kyrrð, séð rjúpu, örn, ref, fundið lyktina af blóðbergi. Getað sagt stolt/ur við barnið þitt:

„Þetta er náttúra Íslands. Hún er heilög og við pössum upp á hana”.

Við getum ekki bæði gengið í óspillta náttúru og sprengt hana.

Við verðum að velja.

Spurningar sem allir þurfa að spyrja sig eru: Hvers vegna er verið að gera þetta? Fyrir hvern er það? Og á hvaða verði?

Því seinast þegar ég tékkaði þá var Ísland ekki til sölu.

Við höfum orkuna sem við þurfum.

Við getum gert orkuskipti án þess að raska meira landi. Við getum valið leiðir sem þjóna fólkinu.

Það sem vantar er ekki fleiri vélar eða virkjanir. Það sem vantar er meðvitund, heiðarleiki og hugrekki til að segja nei.

Landið talar, og þetta vitum við sem eyðum okkar tíma þar, en erum við að hlusta?

Við viljum ekki vera sú kynslóð sem horfir til baka eftir tíu ár og segir:

„Af hverju gerðum við ekkert?“

Við verðum að standa vörð.

Fyrir okkur, fyrir landið og fyrir framtíðina.

Höfundur er náttúran.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×