Á dögunum sögðum við ykkur frá þeim krefjandi aðstæðum sem Rúnar Sigtryggsson hefur þurft að starfa við hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu í handbolta, Leipzig en eftir síðastliðið tímabil var honum sagt upp störfum.
Sonur Rúnars, hinn 22 ára gamli Andri Már, spilaði undir stjórn hans hjá Leipzig frá árinu 2023 og var markahæstur íslenskra leikmanna í þýsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili með 155 mörk. Rúnar hefur verið ánægður með þróunina hjá stráknum.
„Ég held það sé alltaf fyrsta skrefið, þegar að þú kemur svona ungur inn, að byggja þig upp líkamlega. Að geta staðist mönnum snúning í þessari deild. Hann hefur náð því og svo hefur kosturinn fyrir hann verið sá að þegar að það hefur vantað fleiri leikmenn þá hefur hann á sama tíma fengið meiri spilatíma heldur en var kannski planað í upphafi. Hann hefur bara nýtt það feikilega vel. Ég hef ekki undan neinu að kvarta. Það er mikilvægt fyrir hann að hafa náð þessu skrefi, að vera standa sig og losna við þann stimpil að vera bara í liðinu því pabbi hans er að þjálfa.“
Kemur í ljós hvort Andri nýti ákvæðið
Og er það stimpill sem þeir feðgar þurftu að berjast við, sérstaklega snemma í þeirra samstarfi. Óvíst er nú hvað tekur við hjá Andra nú þegar að faðir hans er ekki lengur þjálfari Leipzig. Brotthvarf föðurins gæti hins vegar haft áhrif.
„Við gengum bara þannig frá málunum þegar að þetta byrjaði að ef þessi staða kæmi upp þá væri hann með ákvæði í sínum samningi um að geta hreyft sig. Svo kemur bara í ljós hvort hann nýti það ákvæði eða ekki. Pressan á honum sem ungum leikmanni er náttúrulega búin að þannig að hann sé sonur pabba síns sem er að þjálfa og að þess vegna sé hann alltaf að spila. Þetta var alveg vitað þegar að hann kom, þeir vildu fá hann eftir heimsmeistaramótið hjá u21 landsliðum en þá var þetta spurning um það hvort ég væri til í að standa í þessu því það fyrsta sem allir sjá þegar gengur illa er að sonurinn sé þarna. Þetta gerist bara sjálfvirkt. Ég er bara nokkuð ánægður með það hvernig þetta hefur þróast. Hann hefur allavegana náð að standa sig og slíta sig frá þessu.“
Eru líkur á því að hann færi sig eitthvað um set?
„Það gæti alveg verið. En það er hans að ákveða það með sínum umboðsmanni.“