Handbolti

Goð­sagnir senda Aroni kveðjur: „Einn besti leik­maður allra tíma“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Aron Pálmarsson bindur brátt enda á tuttugu ára feril sem handboltamaður.
Aron Pálmarsson bindur brátt enda á tuttugu ára feril sem handboltamaður. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Aron Pálmarsson tilkynnti í gærkvöldi að hann myndi hætta í handbolta eftir tímabilið. Kveðjum til Arons hefur síðan rignt inn frá fjölmörgum fyrrum liðsfélögum, þjálfurum og öðrum góðvinum.

Aron var um árabil einn besti handboltamaður heims og hefur rakað inn titlum hvar sem hann hefur stigið niður fæti á sínum ferli. Hvort sem það var í Þýskalandi, Ungverjalandi, Spáni, Danmörku eða heima á Íslandi. Alls hefur hann unnið þrjátíu stóra titla með sínum félagsliðum (FH, Kiel, Veszprém, Barcelona og Aalborg) og gæti bætt enn einum í safnið áður en skórnir fara á hilluna.

Aron tilkynnti ákvörðunina á Instagram í gærkvöldi og þakkaði „öllu því góða fólki“ sem hann hefur kynnst á ferlinum. Fólkið þakkar Aroni einnig kærlega.

„Goðsögn“ segir hinn króatíski Domagoj Duvnjak, handboltagoðsögn sem varð á sínum tíma dýrasti leikmaður sögunnar og lauk landsliðsferlinum með eftirminnilegum hætti á EM í janúar, undir stjórn Dags Sigurðssonar. Þeir Aron unnu þýsku deildina sem liðsfélagar hjá Kiel.

Aron Palmarsson, Domagoj Duvnjak og Filip Jicha knúsa Dominik Klein eftir að hafa unnið Bundesliga 2014.Oliver Hardt/Bongarts/Getty Images

Marko Vujin tók í sama streng og lýsti Aroni sem goðsögn. Þeir spiluðu einnig saman hjá Kiel, sem keypti Marko dýrum dómum árið 2010 eftir að hann hafði endað tímabilið sem markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar.

Marko Vujin var liðsfélagi Arons hjá Kiel, áður en Aron fór til Veszprém. Hér sést Aron verjast honum í leik Kiel og Veszprém tímabilið 2015-16. Marius Becker/picture alliance via Getty Images

„BESTU kveðjur Aron! Einn besti leikmaður allra tíma“ segir hinn spænski Víctor Tomás, fyrrum fyrirliði Barcelona sem var innvígður í frægðarhöll evrópska handboltans árið 2023. Hann spilaði með Börsungum allan sinn feril og var liðsfélagi Arons frá 2017-21. Þeir unnu spænsku tvennuna öll tímabilin og Meistaradeildina á síðasta tímabil Arons, áður en hann fór til Aalborg.

Víctor Tomás var fyrirliði Barcelona sem sópaði til sín titlum og vann síðan Meistaradeildina á síðasta tímabili Arons 2020-21. Xavi Urgeles/DeFodi Images via Getty Images

„Kóngur“ segir hinn danski Henrik Møllgaard, sem er með mölbrotið hjarta. Henrik er einnig nýhættur en hefur unnið fjölda verðlauna með danska landsliðinu, og spilaði með Aroni í Aalborg. Þeir unnu danska bikarinn saman 2021, ofurbikarinn sama ár og árið eftir.

Henrik Møllgaard verst Aroni eftir að hann fór frá Kiel til Veszprém 2015. EPA/Aniko Kovacs HUNGARY OUT

Fjöldi fleiri leikmanna, þjálfara og annarra velunnara sendu Aroni kveðju og lýstu tilfinningum sínum með lyndistáknum (e. emoji).

Þrjú rauð hjörtu bárust til dæmis frá Guðjóni Val Sigurðssyni. Þeir spiluðu lengi saman í landsliðinu og unnu til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Beijing 2008 og bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu 2010 í Austurríki. Eftir stjörnuframmistöðu á EM 2012 var Guðjón keyptur af Kiel og spilaði með Aroni þar næstu tvö tímabil.

Aron og Guðjón Valur léku saman með íslenska landsliðinu og Kiel í Þýskalandi. 

Danski landsliðsmaðurinn Lasse Andersson lýsti Aroni með lyndistákni geitar og kórónu. Lasse er einn af fáum liðsfélögum Arons á ferlinum sem gat skotið fastar en hann. Lasse skaut 140 kílómetra hröðu skoti á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar árið 2019, þegar hann var liðsfélagi Arons hjá Barcelona. Aron skaut sínu fastasta skoti á ferlinum sömu helgi, á 132 kílómetra hraða.

Aron til varnar Lasse Andersson eftir að leiðir þeirra skildust. EPA-EFE/Tamas Vasvari HUNGARY OUT

Bjarki fær nýjan herbergisfélaga

„Liðsfélagi, fyrirliði, herbergisfélagi, brósi!“ segir landsliðsmaðurinn og liðsfélagi Arons hjá Veszprém, Bjarki Már Elísson, og þakkar Aroni fyrir þjónustuna.

Bróðurleg ást

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður sem fylgdi Aroni allan landsliðsferilinn, þakkar honum fyrir allt og sendir ástarkveðju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×