Skoðun

Við skuldum þeim að hlusta

Ólafur Adolfsson skrifar

Á fundi sem Samtök sjávarútvegssveitarfélaga stóðu fyrir nýverið kynnti KPMG greiningu á áhrifum fyrirhugaðrar hækkunar veiðigjalda. Þar kom fram alvarlegri mynd en áður hefur sést í opinberri umræðu — og hún gefur ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur.

Samkvæmt greiningunni munu 141 sjávarútvegsfyrirtæki verða fyrir verulegum áhrifum. Þar af eru 127 þeirra staðsett utan höfuðborgarsvæðisins og mörg í viðkvæmum byggðum. Fyrirtækin sjálf lýsa yfir miklum áhyggjum; sum þeirra segja hækkunina setja reksturinn í uppnám og draga úr getu til að fjárfesta, endurnýja búnað og halda úti atvinnu. Í mörgum tilvikum mun veiðigjaldið nema meira en 80% af meðalhagnaði síðustu þriggja ára. Það er einfaldlega ekki sjálfbært.

Fyrirtæki hafa einnig bent á að þessi hækkun skekki samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum, þar sem álögur eru lægri og fyrirsjáanleiki meiri. Hætta er á því að nýliðun í greininni stöðvist, sem hefur áhrif langt út fyrir sjávarútveginn sjálfan – til sveitarfélaga, þjónustufyrirtækja og íbúa.

Það er áhyggjuefni að þessar niðurstöður stangast á við yfirlýsingar atvinnuvegaráðherra, sem segir áhrifin óveruleg án þess að leggja fram gögn því til stuðnings. Gögn sem sveitarfélögin eru enn að kalla eftir.

Lang stærsti hluti veiðigjaldsins kemur af landsbyggðinni og því skora ég á alla landsbyggðaþingmenn að skottast í sína heimabyggð tala beint við sjávarútvegsfyrirtækin í sínum kjördæmum og meta þeirra sjónarmið af sanngirni. Við skuldum þeim og samfélögum landsbyggðarinnar það að hlusta áður en við stígum óafturkræf skref.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×