Skoðun

Við­reisn: öf­ga­laus nálgun fyrir öf­ga­laust sam­félag

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Við í Viðreisn lögðum frá upphafi áherslu á jákvæða og öfgalausa kosningabaráttu. Okkur líður sjálfum betur þannig og við fengum líka mjög skýr skilaboð frá fólki um allt land að það væri mikil eftirspurn eftir þannig stjórnmálaumræðu.

Alls staðar þar sem Viðreisnarfólk hefur komið undanfarnar vikur hefur því verið fagnað hversu jákvæð og uppbyggileg við höfum verið í okkar vinnu. Því er þó ekki að neita að fólk hefur spurt hvort okkur þyki ekki freistandi að svara ýmsum þeim ósannindum og rógi sem fleygt er í okkur af pólitískum mótherjum, jafnvel með kostuðum skilaboðum frá ákveðnum fjölmiðlum.

Við ætlum ekki niður á þetta plan. Flokkar sem virðast ekki geta rekið kosningabaráttu á eigin stefnu eða árangri opinbera einfaldlega getuleysi sitt til að vinna að almannahagsmunum.

Við í Viðreisn viljum treysta íslenskri þjóð til að greiða atkvæði um hvort það eigi taka upp aftur aðildarviðræður við Evrópusambandið. Flokkar sem kalla það að þvinga þjóðina í ESB hafa hættulega sýn á lýðræðið.

Rétt eins og við í Viðreisn stöndum með ríkisrekinni heilbrigðisþjónustu, stöndum við með félögum á borð við Krabbameinsfélagið, Ljósið, Hjartavernd, Reykjalund, SÁÁ, Fæðingarheimilið í Reykjavík, heilsugæsluna á Höfða, heilsugæsluna í Lágmúla, Hrafnistu, Mörk o.fl. Flokkar sem gagnrýna stuðning Viðreisnar við þessi mikilvægu félagasamtök eru ekki til þess fallnir að stýra heilbrigðismálum þjóðarinnar í rétta átt.

Hvað varðar mögulegt stjórnarmynstur þá gengur Viðreisn óbundin til kosninganna á morgun, rétt eins og aðrir flokkar. Við erum mjög meðvituð um að krafa fólks er að hér verði mynduð samhent ríkisstjórn sem getur unnið saman að hagsmunum fólksins í landinu. Síðustu ár hafa sýnt okkur öllum mjög vel hvernig á ekki að gera hlutina. Þessi ár hafa verið þjóðinni dýrkeypt og nú er langþráð tækifæri til að skipta um kúrs og taka til hendinni.

Atkvæði greitt Viðreisn er atkvæði í þágu almannahagsmuna.

Höfundur er o ddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×