Körfubolti

Lakers stað­festa ráðningu JJ Redick

Siggeir Ævarsson skrifar
LeBron James og JJ Redick eru góðir félagar en þeir eru saman með hlaðvarpið Mind the Game Pod. Nú verða þeir samstarfsmenn hjá Lakers einnig
LeBron James og JJ Redick eru góðir félagar en þeir eru saman með hlaðvarpið Mind the Game Pod. Nú verða þeir samstarfsmenn hjá Lakers einnig Vísir/Getty

Los Angeles Lakers hafa nú formlega staðfest verst geymda leyndarmál NBA deildarinnar: JJ Redick verður næsti aðalþjálfari liðsins.

Bandarískir fjölmiðlamenn með innherjasambönd í NBA höfðu þegar greint frá að Redick væri að gera fjögurra ára samning við Lakers en liðið tilkynnti formlega um ráðninguna á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu.

Ráðning Redick hefur vakið nokkra athygli enda hefur hann enga reynslu af þjálfun í NBA og raunar mjög litla reynslu af þjálfun heilt yfir, eins og gárungar á Twitter hafa bent á.

Redick er ekki beinlínis hokinn af reynsluSkjáskot Twitter

Redick er þó alls ekki fyrsti NBA leikmaðurinn sem færir sig beint í stöðu aðalþjálfara án reynslu af þjálfun. Má þar nefna leikmenn eins og Steve Nash, Jason Kidd og Larry Bird, en Kidd fór alla leið í úrslit í vor með Dallas Mavericks.

Redick, sem fagnar 40 ára afmæli sínu í dag, kom inn í deildina 2006 en hann lagði skóna á hilluna árið 2021. Hann hefur unnið sem sérfræðingur hjá ESPN undanfarið fyrir utan auðvitað að vera hlaðvarpsfélagi LeBrons James.

Sjálfur er hann fullkomlega meðvitaður um reynsluleysi sitt og grínaðist með það á blaðafundinni áðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×