Niklas Landin tryggði Álaborg sigurinn með því að verja síðasta skot leiksins. Áður hafði Mads Hoxer Hangaard skorað markið sem reyndist vera sigurmarkið í leiknum. Hangaard áttir stórleik og skoraði níu mörk.
Fredericia var komin fimm mörkum undir eftir fyrri hálfleikinn en sýndi magnaða frammistöðu í seinni hálfleik sem dugaði næstum því. Guðmundur endurstillti sína menn í hálfleik og liðið var hársbreidd frá því að koma leiknum í framlengingu.
Þetta var þriðji leikurinn í úrslitaeinvíginu en Fredericia tryggði sér oddaleik með sigri í öðrum leiknum.
Guðmundur Guðmundsson hefur gert ótrúlega hluti með Fredericia liðið á þessari leiktíð en frammistaðan hefur farið fram úr öllum væntingum.
Í liði Álaborgar er hver stórstjarnan á fætur annarri og þar á meðal tveir af bestu handboltamönnum Dana frá upphafi, markvörðurinn Niklas Landin og stórskyttan Mikkel Hansen.
Álaborgarmenn skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins og voru komnir þremur mörkum yfir, 8-5, eftir tuttugu mínútna leik. Í hálfleik munaði orðið fimm mörkum á liðunum, 13-8, og útlitið því orðið svart.
Mads Hoxer Hangaard skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum Álaborgar í hálfleiknum og var kominn með fimm mörk í hálfleik.
Guðmundur talaði trú í sína menn í hálfleiknum en Fredericia strákarnir skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum seinni hálfleiks og minnkuðu muninn í 13-15.
Munurinn var komin niður í eitt mark, 17-18, þegar átján mínútur voru til leiks og endurkoman á fullri ferð. Þegar hálfleikurinn var hálfnaður var staðan orðin jöfn, 19-19.
Álaborg svaraði með tveimur mörkum í röð en staðan var aftur orðin jöfn þegar fjórar mínútur voru eftir. 25-25 og rosalega spenna í loftinu.
Guðmundur tók leikhlé þegar 33 sekúndur voru eftir af leiknum og Álaborg einu marki yfir 27-26. Liðið fékk færi en Landin varði.
Sárgrætilegur endir en stórbrotin frammistaða í seinni hálfleiknum.