Skoðun

Þjóðarmorðið á Gasa í tölum og hlut­verk Ís­lands

Ingólfur Shahin skrifar

Í nýlegri yfirlýsingu komst Alþjóðadómstóllinn í Haag að þeirri niðurstöðu að sennileg rök væru fyrir þjóðarmorði af hálfu Ísraels gegn palestínsku þjóðinni.

Ofbeldið sem nú á sér stað jókst verulega eftir að Hamas og aðrir palestínskir hópar rufu öryggistálma Ísraela 7. október 2023, sem leiddi til dauða um 750 ísraelskra borgara og 400 hermanna. 252 gíslar voru fluttir til Gasa í von um að skipta þeim fyrir 4000 palestínska fanga sem Ísrael hafði í haldi.

Síðan þá hafa Ísraelar gert linnulausar loftárásir á Gasasvæðið og valdið ómældum þjáningum íbúa þar. Í þessari grein er farið ofan í ógnvekjandi tölfræði sem dregur upp mynd af þjáningu og víðtækum heimspólitískum áhrifum sem Ísland getur ekki litið fram hjá.

En áður en tölurnar eru skoðaðar er best að líta á skilgreininguna á þjóðarmorði.

Hvað er þjóðarmorð?

Samkvæmt hópmorðasáttmálanum [e. Genocide Convention]:

II grein

Þjóðarmorð á við hvern af eftirfarandi verknuðum, sem framinn er í þeim tilgangi að eyðileggja, í heild eða að hluta, þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarhóp sem slíkan:

(a) Dráp á meðlimum hópsins;

(b) Að valda alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða á meðlimum hópsins;

c) Að valda og viðhalda vísvitandi lífsskilyrðum sem ætlað er að tortíma hópnum að öllu eða einhverju leyti;

d) Gera ráðstafanir sem ætlað er að koma í veg fyrir fæðingar innan hópsins;

(e) Nauðflutningur barna úr hópnum yfir í annan hóp.

Í næstu köflum munum við skoða hvernig stríðsglæpir og hóprefsingar gegn palestínsku þjóðinni samræmast þessum viðmiðunum sem lýst er í 2. grein hópmorðasáttmálans.

Yfir 110.000 drepnir eða særðir

Tala látinna á Gasa hefur náð ógnvekjandi hæðum. Frá og með deginum í dag er staðfest að yfir 35.000 séu látin, meirihluti þeirra konur og börn.

Nánar tiltekið hafa 11.000 palestínskar konur og yfir 16.000 börn verið drepin af Ísrael. Til samanburðar voru 320 ísraelskar konur og 38 börn drepin þann 7. október.

Það er átakanleg staðreynd að fleiri palestínsk börn hafi verið drepin á fyrstu 7 mánuðum árása Ísraela á Gasa en í öllum átökum heimsins undanfarin 7 ár samanlagt. "Gasa er orðið að kirkjugarði fyrir börn," sagði Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna. 20.000 börn hafa einnig verið gerð munaðarlaus.

70% heimila eyðilögð

Sprengjuárásir Ísraela hafa gert fólki ómögulegt að búa á Gasa. Yfir 70% allra heimila eru rústir einar og það á einnig við um alla nauðsynlega innviði sem sjá almennum borgurum fyrir vatni og rafmagni. Vegir og fráveitukerfi eru horfin. Jafnvel kirkjugarðar hafa verið vanhelgaðir með jarðýtum.

Allt ræktunarland hefur verið eyðilagt og nánast ekkert er eftir á Gasa sem gæti haldið lífi á þeim 2,3 milljón manns sem búa þar enn.

1,8 milljónir manna eru á flótta

Gasa hefur orðið fyrir svo miklum sprengjuárásum að ekkert í nútímasögunni jafnast á við það. Innviðir eru í rúst og 80% íbúanna eru á vergangi og heimilislausir.

Flestir almennir borgarar flúðu suður til borgarinnar Rafah, sem er síðasta borgin sem eftir stendur á Gasa. Þar hafa nú verið gerðar sprengjuárásir og fólkið því komið aftur á flótta. Alþjóðadómstóllinn hefur skipað Ísraelum að stöðva árásir sínar þar, en þeir hafa virt það að vettugi.

Næstum allir íbúar Gasa eru sannfærðir um að lokatakmark Ísraela sé að reka þá í burtu af Gasa og ná yfirráðum yfir svæðinu.

Vaughan Lowe, prófessor og fulltrúi Suður-Afríku við Alþjóðadómstólinn í Haag, segir að það sé orðið „æ ljósara að aðgerðir Ísraels í Rafah séu til þess fallnar að Gasa verði óhæft til mannlegrar búsetu” og vísar þar til bannsins í hópmorðasáttmálanum um að skapa aðstæður sem ætlað er að eyða lífi.

Fjölmargar yfirlýsingar ráðherranna Itamar Ben-Gvir og Bezalel Smotrich, þjóðaröryggisráðherra og fjármálaráðherra Ísraels, staðfesta þetta. Ísrael hefur gert Gasasvæðið óbyggilegt í þeim tilgangi að reka Palestínumenn þaðan, taka land þeirra yfir og byggja landnemabyggðir fyrir gyðinga.

24 af 36 sjúkrahúsum lögð í rúst

Af 36 sjúkrahúsum á Gasa hafa 32 verið eyðilögð. Hin fjögur sem eftir standa eiga í erfiðleikum við að halda starfsemi gangandi undir linnulausum árásum Ísraels.

Ísraelskir hermenn hafa unnið skemmdarverk á fæðingardeildum og lækningabúnaði, en samkvæmt upplýsingum SÞ skáru þeir á leiðslur ómskoðunartækja sem eru nauðsynleg við fæðingu, eins og merkja þyrfti við enn eitt atriðið á listanum yfir þjóðarmorð og stríðsglæpi.

Yfir 500 læknar og hjúkrunarfræðingar hafa látið lífið og þar að auki 200 hjálparstarfmenn. Ísrael á sök á öllum þeim morðum og hefur Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna kallað eftir rannsókn á fjöldagröfum um 400 sjúklinga; kvenna, barna og aldraðra, sem fundust eftir að ísraelskar hersveitir voru farnar af svæðinu. Hendur sumra þeirra höfðu verið bundnar fyrir aftan bak á meðan aðrir voru grafnir lifandi.

144 blaðamenn hafa fallið

Stríðið á Gasa er orðið að mannskæðustu átökum heims hvað varðar blaðamenn.

Ísrael hefur bannað erlendum fjölmiðlum að koma til Gasa og samtökin Blaðamenn án landamæra hafa sakað Ísrael um að beina spjótum sínum vísvitandi að blaðamönnum til þess að koma í veg fyrir upplýsingagjöf.

Næstum allir blaðamenn sem hafa látist í þessum átökum voru drepnir af Ísrael.

Allir 12 háskólarnir jafnaðir við jörðu

Árás Ísraels á Gasa nær til menntastofnana svæðisins, en allir 12 háskólarnir þar hafa verið lagðir í rúst.

Eyðilegging háskólanna og dráp á yfir 300 kennurum og prófessorum er til merkis um samstillt átak til að þurrka út palestínska þekkingu og menningu.

90% þjóðarinnar sveltur

Ísrael hefur beitt hungri sem vopni í átökunum og hefur það verið fordæmt af mörgum, þar á meðal nánum bandamönnum á borð við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anthony Blinken.

Næstum allir íbúar Gasa standa nú frammi fyrir sulti og hungursneyð og eru börn og barnshafandi konur sérlega berskjölduð fyrir langtímaáhrifum vannæringar. Mörg ungbörn hafa þegar dáið úr vannæringu í því sem Joseph Borell, utanríkisráðherra ESB, hefur kallað „hungursneyð af mannavöldum“.

Vísvitandi árásir á bakarí á fyrstu dögum árásarinnar á Gasa, eyðilegging matarbirgða og stöðvun matvælaflutninga sýna augljósa sadíska grimmd í herferð Ísraels gegn óbreyttum borgurum á Gasa.

Árás á Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna

Ákvörðun 18 ríkja, þar á meðal Íslands, að styðja Ísrael og affjármagna Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu, í miðri mannúðarkreppu, verður án efa minnst sem skammarleg þátttaka í svelti saklausra borgara.

Aðgerðin byggðist á vafasömum fullyrðingum Ísraels um að 12 af 30.000 (0.0004%) starfsmönnum UNRWA hefðu tekið þátt í árásinni 7. október. Þessar fullyrðingar voru síðar hraktar í óháðri rannsókn þar sem Ísrael tókst ekki að leggja fram nein sönnunargögn, stuttu eftir að upp komst að starfsfólk UNRWA hefði verið pyntað af ísraelska hernum.

Það verður í minnum haft að affjármögnunin og eiginlegt svelti palestínskra flóttamanna átti sér stað daginn eftir að Alþjóðadómstóllinn úrskurðaði að það væri sennileg ástæða til að telja að Ísrael stæði að þjóðarmorði og skipaði Ísrael að „auka mannúðaraðstoð á Gasasvæðinu og draga úr hungursneyð saklausra palestínskra borgara“.

Mörg ríki sem tóku þátt í þessum skammarlegu aðgerðum hafa nú tekið upp fjárframlög til UNRWA á ný. Samtökin, sem sjá palestínskum flóttamönnum fyrir heilsugæslu, máltíðum og skólagöngu, eru þó enn alvarlega undirfjármögnuð miðað við það gríðarlega átak sem þarf til um þessar mundir.

Ísrael neitar friði

Afdráttarlaus höfnun Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, á tveggja ríkja lausn sýnir fyrirætlanir Ísraels um að viðhalda hernáminu og halda áfram innlimun palestínsks landsvæðis og neita þannig Palestínumönnum um sjálfsákvörðunarrétt sinn.

Þetta hefur auðvitað verið augljóst í áratugi út frá stöðugri og linnulausri innlimun palestínsks landsvæðis á Vesturbakkanum til að byggja landnemabyggðir eingöngu fyrir gyðinga.

En aldrei áður hafa jafn háttsettir ísraelskir stjórnmálamenn hafnað svo afdráttarlaust grundvallarhugmyndinni um friðarsamkomulag við Palestínumenn.

Eins kaldhæðnislegt og það hljómar hefði tveggja ríkja lausnin gert Palestínumönnum kleift að halda aðeins 22% af sögulegu landsvæði sínu, en jafnvel þeirri málamiðlun hefur nú verið hafnað að fullu af hálfu Ísraels.

Með eyðileggingu Gasa og skiptingu Vesturbakkans með ólöglegum landnemabyggðum eru horfurnar á stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu við hlið Ísraels nú nánast engar.

Yfirlýsingar ísraelskra embættismanna um þjóðarmorð

Ef að allar staðreyndirnar sem hér eru upp taldar eru ekki nóg, þá þarf ekki annað en hlusta á hvað ísraelskt stjórnmálafólk hefur að segja. Í málinu gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum, lagði Suður-Afríka fram yfir 500 yfirlýsingar háttsettra ísraelskra embættismanna þar sem hvatt var til þjóðarmorðs.

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur kallað Palestínumenn „mannleg dýr“. Á sama tíma vitnaði Netanyahu í biblíuvers sem hvetur til dráps á konum og börnum. Ásamt leiðtogum Hamas eru þeir nú eftirlýstir af aðalsaksóknara Alþjóðlega sakamáladómstólsins, sem sækir einstaklinga til saka fyrir stríðsglæpi.

Þá hafa aðrir ísraelskir embættismenn jafnvel rætt um að flytja Palestínumenn til Kongó, á meðan aðrir embættismenn hafi lagt til að „senda nokkur hundruð þúsund til skosku hálendanna“. Ísraelskir stjórnmálamenn og fjölmiðlar fjalla oft um það að leyfa ætti Palestínumönnum frá Gasa að „flytja sjálfviljugir“ til Evrópu og annarra staða.

Á Íslandi höfum við þegar fundið fyrir áhrifum þessarar stefnu Ísraela og verðum vör við verulega fjölgun í hópi palestínskra flóttamanna sem koma til landsins.

Hvernig snertir þetta Ísland?

Fyrir utan mannúðarsjónarmið og það álag sem myndast í innflytjendakerfi okkar hefur þjóðarmorð einnig verulega lagalega þýðingu fyrir Ísland.

Sem aðili að hópmorðasáttmálanum er Ísland skuldbundið skv. 1. gr. til að „koma í veg fyrir og refsa“ fyrir aðgerðir sem leiði til þjóðarmorðs sem framkvæmdar eru af öðrum þjóðum.

I grein

Samningsaðilar staðfesta að þjóðarmorð, hvort sem um er að ræða á friðar- eða stríðstímum, sé álitinn glæpur samkvæmt alþjóðalögum, sem þeir skuldbinda sig til að koma í veg fyrir og refsa fyrir.

Þessi tvíþætta skuldbinding undirstrikar mikilvægi þess að farið sé að alþjóðalögum og að mannréttinda sé gætt. Út frá nýlegri viðvörun Alþjóðadómstólsins í Haag um sennilegt þjóðarmorð, verður Ísland því að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir og refsa fyrir þjóðarmorðið sem á sér stað gegn palestínsku þjóðinni.

Árangursríkt skref væri að fylgja fordæmi þeirra ríkja sem hafa lagt fram rök til stuðnings máli Suður-Afríku. Önnur ríki hafa ákveðið að skera á öll viðskipti við Ísrael á meðan enn öðrum þjóðum hefur reynst auðveldara að slíta stjórnmálasambandi.

Hvað sem gerist, verður ríkisstjórn okkar að halda uppi reisn þjóðarinnar með því að styðja ekki við árásir gegn stofnunum Sameinuðu þjóðanna sem leitast við að veita saklausum borgurum aðstoð. Við megum heldur aldrei aftur sitja hjá við ályktun um vopnahlé í átökum þar sem konur og börn eru helstu fórnarlömbin, eins og við gerðum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 27. október 2023.

Íslenskir fjölmiðlar verða að draga stjórnmálamenn okkar til ábyrgðar hvað þetta varðar og minna á þá smán sem Hermann Jónsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, kallaði yfir sig og þjóðina með því að neita stuðningi við gyðinga á meðan þjóðarmorð á þeim stóð yfir.

Ef íslenskir stjórnmálamenn bregðast ekki með afgerandi hætti við þessu þjóðarmorði, mun það grafa undan siðferðislegri stöðu Íslands og skilja eftir svartan blett á sögu okkar. Orðstír okkar sem friðelskandi þjóð sem virðir mannréttindi er í húfi, því við berum skyldu til að standa gegn þjóðarmorði, hvar og hvenær sem það á sér stað, líkt og nú gerist á Gaza.

Heimildir:




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×