Skoðun

Snúningshurðin í ráðu­neytinu

Jón Kaldal skrifar

Matvælaráðherra birtir í dag grein á Vísi þar sem hún kvartar undan ábendingum um skynsemi þess að fela fyrrum starfsfólki Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), nú starfsfólki ráðuneytisins, að semja frumvarp um lagareldi.

Nýtt gjafakvótakerfi

Staðreyndin er þó sú að í stað þess að vinda ofan þeim vísi að nýju gjafakvótakerfi, sem er að finna í núverandi lögum um fiskeldi, er skrefið tekið alla leið í frumvarpi um lagareldi sem þrír matvælaráðherrar VG hafa nú komið að: Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Auðvitað er pólitíska ábyrgðin þeirra en hvernig það gerðist að málið er komið í þennan farveg er rannsóknarefni.

Fingraförum SFS fjölgaði

Sú umræða er ekki ný hversu óheppileg það er að fólk fari úr starfi hjá sérhagsmunagæslusamtökum í vinnu fyrir opinberar stofnanir sem eiga að gæta hagsmuna almennings gagnvart sömu samtökum. Eða öfugt.

Staðreyndin er sú að í hverri umferð við smíði þessa frumvarps fjölgaði fingraförum SFS á því. Á sama tíma var ekkert tillit tekið til mikilvægra ábendinga um vernd umhverfis, lífríkis og velferð eldisdýranna.

SFS hefur tamið sér, og orðið vel ágengt, að beita miklum yfirgangi gagnvart stjórnvöldum og fulltrúum þeirra.

Furðulegt er að sjá embættis- og stjórnmálamenn, kikna í hnjánum frammi fyrir þessari frekju.

70 prósent þjóðarinnar andvíg

Starfsemi sókvíaeldisfyrirtækjanna er meira minna öll í klessu. Þau hafa misst frá sér fisk í stórum stíl, látið gríðarlegt magn af eldislöxum drepast í sjókvíunum ár eftir ár af völdum laxalúsar og vetrarsára, þau hafa þurft að farga fiski vegna blóðþorrasykingar, sem er versti sjúkdómur sem getur komið upp í sjókvíaeldi og þau hafa farið í mál við sveitarfélög vegna þess að þau tíma ekki að borga hafnargjöld eftir verðskrá.

Það er ekki erfitt að skilja af hverju um 70 prósent þjóðarinnar er andvíg þessari starfsemi. Hitt er skrítnara, af hverju enn um 10 prósent styðja þetta?

Ef þetta frumvarp verður að lögum munu alþingismenn sem samþykkja það hafa reist sér minnisvarða til æviloka um þjónkun við sérhagsmuni fárra á kostnað almannahagsmuna og náttúru Íslands.

Höfundur er félagi í Íslenska náttúruverndarsjóðnum.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×