Handbolti

Haukur og fé­lagar lentir undir í úrslitaeinvíginu eftir vítakeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Þrastarson leikur með Kielce.
Haukur Þrastarson leikur með Kielce. EPA-EFE/Henning Bagger

Haukur Þrastarson og félagar hans í Kielce eru lentir undir í úrslitaeinvígi pólsku deildarinnar í handbolta eftir tap í vítakeppni gegn Wisla Plock.

Líkt og síðustu ár voru Kielce og Wisla Plock í algjörum sérflokki í pólsku deildarkeppninni og því við hæfi að liðin skyldu mætast í úrslitum.

Eins og kannski við var að búast var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda og munurinn á liðunum var aðeins eitt mark í hálfleik, staðan 12-11, Wisla Ploc í vil, þegar leikmenn gengu til búningsherbergja.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 22-22. Því þurfti að grípa til vítakastkeppni til að skera úr um sigurvegara.

Í vítakeppninni voru markverðirnir í aðalhlutverki og vörðu samtals sjö vítaköst. Mirko Alilović varði fjögur víti fyrir Wisla Plock og Andreas Wolff varði þrjú fyrir Kielce. Heimamenn í Wisla Plock fögnuðu því dramatískum sigri að lokum og eru komnir með forystuna í einvíginu.

Vinna þarf tvo leiki til að tryggja sér pólska meistaratitilinn, en næsti leikur fer fram að viku liðinni á heimavelli Kielce.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×