Handbolti

HM í hand­bolta 2031 fer fram á Ís­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson er ungur enn og gæti spilað á HM í heimavelli árið 2031.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er ungur enn og gæti spilað á HM í heimavelli árið 2031. Vísir/Vilhelm

Alþjóða handknattleikssambandið hefur ákveðið að heimsmeistaramót karla í handbolta eftir sjö ár fari fram á Norðurlöndunum.

Það verða Noregur, Danmörk og Ísland sem halda heimsmeistaramótið 2031 saman. Það er ekki búið að ákveða hvernig leikirnir munu skiptast á milli landanna eða í hvaða borgum verður spilað.

Þetta var gefið út á heimasíðu Alþjóða handboltasambandsins í dag.

Hér á Íslandi eiga leikirnir hins vegar að fara fram í nýju Þjóðahöllinni sem á að byggja við hlið Laugardalshallarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa lofað því að byggingu hennar ljúki á næstu árum.

HM 2029 fer fram í Frakkland og Þýskalandi. Við sama tilefni var ákveðið að HM kvenna 2029 fari fram á Spáni og HM kvenna 2031 fari fram í Tékklandi og Póllandi.

Danir og Norðmenn munu halda HM á næsta ári í samstarfi með Króatíu en síðan skipta þeir Króatíu út fyrir Ísland til að halda HM sex árum síðar.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, var á staðnum ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Hér eru þau með Dr Hassan Moustafa forseta Alþjóða handboltasambandsins og fulltrúum Dana og Norðmanna.IHF

Þetta er í annað skiptið sem Ísland heldur HM í handbolta karla en mótið fór fram á Íslandi árið 1995 eins og frægt er.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, var á staðnum ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þingkonu Viðreisnar.

„Þetta samstarf mun ekki aðeins lyfta handboltanum á Íslandi heldur einnig sýna það og sanna að smærri þjóðir geti haldið stórmót í gegnum sterkt alþjóðlegt samstarf,“ sagði Guðmundur við heimasíðu IHF.

Það er líklegast að Ísland verði í sama hlutverki og Danir eru á HM á næsta ári. Þar fara fram tveir riðlar og einn milliriðill. 

Norðmenn eru með tvo riðla á HM 2025 og einn milliriðll en Króatar eru með fjóra riðla og tvo milliriðla. Átta liða úrslitin skiptast á milli Króata og Norðmanna alveg eins og undanúrslitin. Úrslitaleikurinn fer fram í Noregi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×