Körfubolti

Hamar/Þór upp í efstu deild á meðan Aþena og KR fara í um­spil

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sæti í Subway-deild kvenna fagnað.
Sæti í Subway-deild kvenna fagnað. Karfan.is

Hamar/Þór tryggði sér í kvöld sæti í Subway-deild kvenna á næstu leiktíð með sigri á Ármanni. Aþena og KR mættust í leik sem hefði getað skilað sigurliðinu upp hefði Hamar/Þór tapað sínum leik. Bæði lið fara nú í umspil um sæti í Subway-deildinni ásamt Tindastól og Snæfelli.

Gestirnir frá Hveragerði og Þorlákshöfn vissu að sigur myndi skila liðinu upp í deild þeirra estu. Segja má að sigurinn hafi aldrei verið í hættu þrátt fyrir áhlaup heimaliðsins í þriðja leikhluta.

Lokatölur 72-82 og Hamar/Þór komið upp. Aniya Thomas fór fyrir sigurliðinu en hún skoraði 24 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Jóhanna Ágústsdóttir kom þar á eftir með 18 stig. Í liði Ármanns var Jónína Karlsdóttir stigahæst með 22 stig ásamt því að taka 6 fráköst og gefa 4 stoðsendingar.

Úr leik Aþenu og KR.Vísir/Hulda Margrét

Aþena tók á móti KR í leik sem hefði getað skilað öðru hvoru liðinu upp um deild. Fór það svo að Aþena vann fjögurra stiga sigur, 61-57, og endar í 2. sæti. Sianni Martin var stigahæst í liði Aþenu með 21 stig á meðan Asa Wolfram skoraði 17 og tók 6 fráköst. Í liði KR var Perla Jóhannsdóttir stigahæst með 15 stig, 5 stoðsendingar og 4 fráköst.

KR endar sæti neðar og bæði lið fara því í umspil um sæti í Subway-deildinni. Þar verða einnig Tindastóll sem endaði í 4. sæti 1. deildar og Snæfell sem endaði næstneðst í Subway-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×