Sport

„Ólafur Ragnar úr Nætur­vaktinni“ vann BKG og er efstur Ís­lendinga í 24.1

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson varð að sætta sig við annað sætið á eftir huldumanninum Lina Linasyni.
Björgvin Karl Guðmundsson varð að sætta sig við annað sætið á eftir huldumanninum Lina Linasyni. Samsett/CrossFit/@bk_gudmundsson

Keppendur í The Open hafa nú skilað inn árangri sínum í fyrsta hlutanum af þremur og það er óhætt að segja að þar séu óvæntir hlutir að gerast karlamegin.

Björgvin Karl Guðmundsson er nefnilega ekki efstur íslenskra karla eftir fyrsta hlutann í undankeppni heimsleikanna í CrossFit. Sá Íslendingur sem er efstur keppir undir leyninafni og notar enn fremur mynd af þekktri sjónvarpsþáttapersónu.

Björgvin Karl hefur haft mikla yfirburði meðal íslensku strákanna undanfarin áratug og er í hópi bestu CrossFit karla heims. Þetta var ekki alveg hans æfing því hann var ekki nálægt því að vera efstur Íslendinga.

Sá sem er með bestan árangur af íslensku strákunum keppir undir mynd af Ólafi Ragnari úr Næturvaktinni og undir leyninafninu Lini Linason. Hann kláraði æfingu 24.1 á sex mínútum og fjórum sekúndum og endaði í 38. sæti í heiminum í æfingunni.

Björgvin Karl, BKG, er í 139. sæti og því meira en hundrað sætum á eftir. Björgvin kláraði á sex mínútum og 23 sekúndum.

Enginn annar íslenskur karl er meðal fimm hundruð efstu en þriðji af Íslendingum er Óskar Marinó Jónsson úr CrossFit Suðurnesja í 578. sæti. Óskar kláraði á sex mínútum og 46 sekúndum.

Fjórði er Bergur Sverrisson (849. sæti) og fimmti er handbolta- og fótboltadómarinn Sigurður Hjörtur Þrastarson úr CrossFit Norður (1003. sæti).

Vísir ætlar samt að svipta hulunni af Lini Linasyni sem er skráður undir því nafni í opinberri skráningu hjá CrossFit samtökunum. Samkvæmt upplýsingum okkar er þar á ferðinni hinn 27 ára gamli Ívar Sigurbjörnsson.

Fyrir þá sem eru búnir að gleyma eða voru of ungir til að muna eftir þáttunum um Næturvaktina, Dagvaktina og Fangavaktina þá var Ólafur Ragnar Hannesson starfsmaður á næturvakt bensínstöðvar Skeljungs við Laugaveg. Hann átti lítinn bláan jeppa sem hann kallaði Læðuna og var oft fórnarlamb illkvittni Georgs Bjarnfreðarsonar.

Þættirnir um Næturvaktina slógu í gegn á Stöð 2 árið 2007 og í framhaldinu voru gerðir bæði þættirnir um Dagvaktina og Fangavaktina sem fjalla um sömu persónurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×