Körfubolti

Nálgast stigamet strákanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark er magnaður leikmaður og fer fyrir liði Iowa Hawkeyes.
Caitlin Clark er magnaður leikmaður og fer fyrir liði Iowa Hawkeyes. Getty/Matthew Holst

Bandaríska körfuboltakonan Caitlin Clark er búin að bæta stigamet kvenna í 1. deild bandaríska háskólaboltans en eltir nú uppi fleiri stigamet.

Margir bíða spenntir eftir því hvort henni takist að bæta stigamet strákanna.

Það er uppselt á alla leiki hennar með Iowa og þegar uppselt á alla úrslitakeppnina í Big Ten deildinni. Caitlin Clark er ein stærsta íþróttastjarna Bandaríkjanna í dag og allt sem hún gerir er slegið upp í stærstu bandarísku miðlunum.

Clark var með þrennu í síðasta leik Iowa skólans þegar hún skoraði 24 stig, tók 15 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Þetta var fimmta þrennan hennar á tímabilinu og sú sextánda á háskólaferlinum.

Clark hefur nú skorað 3617 stig á háskólaferli sínum. Hana vantar 33 stig til að bæta met Lynette Woodard yfir flest stig kvenna í öllum deildum háskólaboltans. Hún sló met Kelsey Plum yfir flest stig í 1. deildinni.

Metið hjá strákunum á aftur á móti Pete Maravich sem skoraði 3.667 stig fyrir LSU frá 1967 til 1970. Clark vantar 51 stig til að bæta met hans. Maravich spilaði bara í þrjú ár og þá var enginn þriggja stiga lína. Það yrði samt stórt fyrir Clark að slá stigamet strákanna.

Iowa á eftir tvo deildarleiki, leik á móti Minnesota á miðvikudaginn og leik á móti Ohio State á sunnudaginn.

Clark þarf því að skora 25,5 stig að meðaltali í leikjunum til að bæta með Pistol Pete Maravich. Hún er með 32,1 stig, 7,3 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×