Skoðun

Streitan ekki að yfir­gefa vinnu­markaðinn

Ingibjörg Valgeirsdóttir og Guðbjörg Björnsdóttir skrifa

Streitan er ekki að fara að yfirgefa vinnumarkaðinn. Sem betur fer ekki! Hið fullkomna viðbragðskerfi líkamans hefur hjálpað okkur að lifa af sem mannkyn. Góð blanda af einbeitingu, drifkrafti og atorku er uppskriftin að því að láta verkin tala, ná markmiðum og árangri og upplifa bæði starfsorku og starfsánægju. Ef hlutföllin í uppskriftinni eru nokkuð góð þá er orðið streita trúlega fjarlægt þér. Ef jákvæð streita fer hinsvegar að þróast yfir í neikvæða streitu þá eru líkur á því að þú upplifir áhrif hennar á eigin skinni ekkert sértaklega vel. Sem er bæði eðlilegt og allt í lagi – þangað til að hún fer að hafa áhrif á heilsu þína ti lengri tíma.

Sterkasta vopnið gegn neikvæðum áhrifum streitu á heilsu og lífsgæði í lífi og starfi er að taka ábyrgð á eigin heilsu, vera vakandi og vita hvað virkar best fyrir þig. Neikvæð áhrif streitu eru ólík milli einstaklinga. Svefnleysi, vöðvabólga, stoðkerfisverkir, einbeitingarskortur, minnisleysi, áhyggjur, pirringur, reið, grátgirni, doði, minna félagslegt þol og minna þol fyrir skynáreitum, s.s. birtu og hljóðáreitum, eru dæmi um einkenni sem neikvæð streita getur haft í för með sér. Þrautseigja, dugnaður og metnaður geta haldið okkur lengi gangandi eftir að neikvæð áhrif streitu gera vart við sig og þannig geta þessir styrkleikar okkar leitt til þess að við förum að ganga á okkar eigin heilsu. Því miður þá getum við gengið hættulega langt á hana.

Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að líkaminn hefur ótrúlega getu til að heila sig sjálfur, ef við gefum honum svigrúm og tækifæri til þess. Stundum þarftu bara að staldra við. Gefa þér tíma til að hlusta og hlúa að og nýta styrkleika þína á nýjan hátt fyrir þig og heilsuna þína. Undanfarna áratugi hefur þekking og þekkingarmiðlun á heilsueflandi leiðum og tækifærum aukist svo um munar. Árangurinn? Líftími okkar er að lengjast.

Við erum hluti af náttúrunni. Það er því náttúrulegt að það skiptist á skin og skúrir á vinnustöðum. Það er ekkert eitt sem kemur okkur í gegnum skaflana. Töfrarnir við að vera manneskja eru fólgnir í því hvað við erum ólík og með ólíkar þarfir. Vinnustaðir hafa í vaxandi mæli reynt að mæta þessum ólíku þörfum með ólíkum heilsueflandi áherslum sem er spennandi vegferð. Vegferð sem hefur jákvæð áhrif á bæði einstaklinga og samfélög og eykur samkeppnisstöðu fyrirtækja og stofnana. Vellíðan í vinnu sparar peninga, fækkar veikindadögum og eykur bæði ánægju og árangur.

Höfundar eru eigendur Saga Story House – Heilsueflandi fræðslufyrirtæki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Kristín Huld Sigurðardóttir skrifar

Skoðun

Eygló Halldórsdóttir skrifar

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×