Handbolti

Vals­menn rúlluðu HK-ingum upp að Hlíðar­enda

Smári Jökull Jónsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson var frábær hjá Val í kvöld.
Benedikt Gunnar Óskarsson var frábær hjá Val í kvöld. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valsmenn minnkuðu forskot FH á toppi Olís-deildarinnar niður í eitt stig eftir afar öruggan sigur á HK á heimavelli sínum að Hlíðarenda í kvöld.

Valur var þremur stigum á eftir toppliði FH fyrir leikinn í kvöld en HK sat í 10. sæti og er að berjast um sæti í úrslitakeppninni.

HK byrjaði leikinn nokkuð vel og komst meðal annars í 7-5 forystu. Valsmenn jöfnuðu þó metin og staðan var 10-10 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá vöknuðu Valsmenn. Þeir unnu lokamínútur hálfleiksins 8-4 og leiddu 18-14 í hálfleik.

Í síðari hálfleik keyrðu Hlíðarendapiltar síðan yfir Kópavogsbúa. Valur skoraði fyrstu fjögur mörkin í síðari hálfleik og forystan var orðin tíu mörk þegar sjö mínútur voru liðnar af hálfleiknum.

Heimamenn héldu síðan áfram, þeir unnu síðari hálfleikinn 21-10 og leikinn 39-24. Öruggur sigur Vals staðreynd og Valur aðeins einu stigi á eftir FH sem þó á leik til góða.

Benedikt Gunnar Óskarsson var magnaður í liði Vals með tíu mörk og átta sköpuð færi. Ísak Gústafsson skoraði sjö mörk og Arnar Þór Fylkisson fékk tækifærið í markinu og greip það heldur betur. Hann varði sextán skot í markinu eða rúmlega 40% þeirra skota sem hann fékk á sig.

Hjá HK var Kári Tómas Hauksson markahæstur með átta mörk og Sigurjón Guðmundsson varði tíu skot í markinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×