Viðskipti innlent

Rapyd í ólgu­sjó: Herjað á mörg hundruð fyrir­tæki að slíta við­skiptum við Rapyd

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Garðar Stefánsson, forstjóri Rapyd Europe, hefur átt í opinberum ritdeilum við kvikmyndagerðarmanninn Björn B. Björnsson. Rapyd hefur beðið um að lógó sitt sé afmáð af posum á sama tíma og fyrirtækið er í stórri auglýsingaherferð. Sniðganga Íslendinga virðist bíta fyrirtækið.
Garðar Stefánsson, forstjóri Rapyd Europe, hefur átt í opinberum ritdeilum við kvikmyndagerðarmanninn Björn B. Björnsson. Rapyd hefur beðið um að lógó sitt sé afmáð af posum á sama tíma og fyrirtækið er í stórri auglýsingaherferð. Sniðganga Íslendinga virðist bíta fyrirtækið. Vísir/Vilhelm/Hjalti

Tugir viðskiptavina hafa hætt viðskiptum við greiðsluhirðinn Rapyd Europe á síðustu vikum. Forstjórinn segir sniðgönguna bitna á starfsfólki fyrirtækisins en aðgerðasinnar segja efnahagssniðgöngu eina vopn almennra borgara. Ríkiskaup endurnýjuðu samning sinn við Rapyd Europe á mánudag en eru að undirbúa nýtt útboð á færsluhirðingu.

Það hefur heldur betur gustað um greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd undanfarna mánuði frá því að forstjóri þess, Arik Shtilman, lýsti yfir stuðningi við ísraelska herinn á LinkedIn síðu sinni í nóvember. 

Þegar Shtilman var inntur eftir skýringum á yfirlýsingu sinni ítrekaði hann orð sín og sagði Ísraela munu „drepa hvern einasta Hamas-hryðjuverkamann í Gasa og útrýma þeim“ sama hver fórnarkostnaðurinn væri.

Frá því Shtilman lýsti þessu yfir hefur stór hópur Íslendinga tekið sig til og sniðgengið Rapyd Europe sem starfar hér á landi en er í eigu hins ísraelska Rapyd. 

Sniðgangan er hluti af stærri sniðgöngu á ísraelskum vörum sem alþjóðlega hreyfingin BDS (e. Boycott Divestment Sanctions), sem var stofnuð í Palestínu 2005, stendur fyrir til að mótmæla hernámi Ísraela á Gasa.

Tugir fyrirtækja hætt að versla við Rapyd á Íslandi

Sniðgangan felst í því að fólk forðast að versla við fyrirtæki sem nota færsluhirðingu Rapyd eða það greiðir með reiðufé eða millifærslu í stað greiðslukorts. Sami hópur hefur þrýst á mörg hundruð íslenskra fyrirtækja og stofnana sem eru í viðskiptum við Rapyd um að skipta um greiðsluhirði.

Einnig hefur borið á óhefðbundnara andófi gegn Rapyd. Þeir sem horfðu á handboltalandsliðið keppa á EM í janúar urðu kannski varir við stuðningsmenn sem birtust á skjánum með undarlegt svart límband framan á treyjum sínum. Af því Rapyd er einn af styrktaraðilum handboltalandsliðsins ákváðu einhverjir að líma yfir merki fyrirtækisins í táknrænu andófi.

Einn af þeim stuðningsmönnum sem ákvað á líma svart límband yfir merki Rapyd á landsliðstreyjunni.Vísir/Vilhelm

Á Facebook-síðunni „Sniðganga fyrir Palestínu - BDS Ísland“ sem telur 4.902 manns er að finna upplýsingar um sniðgöngu á ísraelskum vörum en aðgerðir gegn Rapyd Europe eru sérstaklega fyrirferðarmiklar innan hópsins. Þar má sjá fjölda færsla með ábendingum um fyrirtæki sem nota færsluhirðingu Rapyd eða hafa hætt viðskiptum við fyrirtækið.

Sniðgangan er komin á það stig að búið er að stofna sérstakan skráningarvef sem heitir Hirðir (hirdir.is). Inni á vefnum er að finna tæplega fimm hundruð fyrirtæki og stofnanir sem ýmist nota færsluhirðingu Rapyd, hafa skipt um færsluhirði eða eru að vinna í því að skipta.

Þrýstingur á fyrirtæki um að hætta viðskiptum við Rapyd virðist hafa skilað árangri ef marka má Hirði af því að af þessum 467 skráðu viðskiptavinum hafa 251 hætt að nota Rapyd og 71 eru að vinna í því að skipta um færsluhirði. Þó kemur ekki fram af hvaða ástæðum fyrirtækin hafa hætt viðskiptum og eru án efa markaðsástæður að baki einhverjum þeirra.

Meðal fyrirtækja sem eru sögð hafa hætt viðskiptum við Rapyd á Hirði eru Blush, IKEA, Storytel, Icewear, Orka náttúrunnar, Hopp, Lyfja, KFC og mörg fleiri.

Áberandi auglýsingaherferð um íslenska þróun

Á sama tíma og fjöldi fyrirtækja hafa hætt viðskiptum við Rapyd hefur fyrirtækið farið í áberandi auglýsingaherferð undir yfirskriftinni „Þróað á Íslandi“ sem sjá má á strætóskýlum, fréttamiðlum og í  myndböndum á Youtube. 

Auglýsingar Rapyd hafa verið áberandi undanfarna viku. Hér má sjá heilsíðuauglýsingu í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins í síðustu viku sem var dreift frítt í hús og auglýsingu á strætóskýli.

Ætla má að með herferðinni vilji Rapyd Europe undirstrika íslenskar rætur sínar sem ná aftur til ársins 1983 þegar sameignarfélagið Visa Ísland var stofnað af íslenskum bönkum og sparisjóðum. Þremur árum síðar var nafninu breytt í Greiðslumiðlun ehf. og árið 2007 varð það að Valitor. 

Rapyd Europe varð til þegar ísraelska fjártæknifyrirtækið Rapyd keypti íslenska kortafyrirtækið Valitor fyrir 12,3 milljarða árið 2022 og sameinaði rekstur þess og Korta hf.

Auglýsingaherferðin er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að Garðar Stefánsson, forstjóri Rapyd Europe, hefur átt í opinberum ritdeilum við Björn B. Björnsson, kvikmyndagerðarmann, um Rapyd. 

Í skrifum sínum hefur forstjórinn lagt mikla áherslu á að Rapyd Europe sé íslenskt fyrirtæki þó eignarhaldið sé erlent.

Ritdeilur um Rapyd á Vísi

Björn B. Björnsson hefur frá því í desember birt fimm skoðanagreinar um Rapyd á Vísi. Hann hefur þar fjallað um fyrrnefnda yfirlýsingu Shtilman um útrýmingu á Hamas-liðum og sniðgöngu íslenskra fyrirtækja vegna hennar. 

Björn hefur einnig fullyrt að hið ísraelska Rapyd stundi viðskipti í landránsbyggðum Ísraela á Vesturbakkanum og styðji ísraelska herinn.

Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður

Eftir að Björn birti þriðju greinina „Rapyd og Ríkiskaup“ þann 8. febrúar þar sem hann fjallaði um samning Ríkiskaupa við Rapyd fann Garðar sig knúinn til að svara honum í greininni „Staðreyndir um Rapyd“.

Þar sagði Garðar að þó Rapyd Europe starfaði undir merkjum alþjóðlega fjártæknifyrirtækisins Rapyd væri það íslenskt fyrirtæki. Eins sagði hann að Rapyd tengdist átökum fyrir botni Miðjarðarhafs ekki neitt og hefði ekki stutt við hernað Ísraelshers með nokkru móti.

Björn var fljótur að svara Garðari um hæl með skoðanagreininni „Rétt og rangt um Rapyd“ þar sem hann sagði fyrirtækið ekki vera íslenskt af því að í fyrirtækjaskrá þess væru raunverulegir eigendur þess tveir Ísraelar, þar á meðal forstjórinn Arik Shtilman, og einn Breti. Sömuleiðis væri rangt að Rapyd hefðu ekki stutt við hernað Ísraelshers í ljósi yfirlýsingar Shtilman.

Garðar svaraði aftur með skoðanagreininni „Enn af Rapyd og röngum fullyrðingum“ þar sem hann sagði að fyrirtækið væri víst íslenskt þó móðurfélagið væri ísraelskt. Rapyd Europe væri með íslenska kennitölu, hefði starfað á Íslandi í tugi ára og væri með 180 starfsmenn á Íslandi.

Hann sagði skrif Björns um eigendaskráningu Rapyd byggjast á vanþekkingu á því hvernig skráning raunverulegra eigenda virkar. Vegna dreifðs eignarhaldsins væru þeir einstaklingar sem mynduðu stjórn þess skráðir sem raunverulegir eigendur.

Þá sagði Garðar að krafa um sniðgöngu á Rapyd á Íslandi í nafni mannréttinda væri ómálefnaleg og ómakleg. Starfsfólk hér á landi hefði ekkert með ástandið í Mið-Austurlöndum að gera og væri jafn vanmáttugt um að stöðva átökin og aðrir á Íslandi.

Viðurkenna að hafa falið lógó sitt

Þeir Björn og Garðar ræddu báðir við Þóru Tómasdóttur í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á Rás 1 á miðvikudag. Mennirnir hömruðu þar áfram á sömu áherslupunktum og í skoðanagreinum sínum. 

Björn talaði um að það væri ekki hægt að neita því að Rapyd Europe væri í eigu Ísraela og stuðningur Shtilman við ísraelska herinn væri skýr í yfirlýsingu hans.

Garðar ítrekaði að Rapyd hefði ekkert með stríðið að gera og sagðist harma hvað sniðgangan kæmi niður á röngu fólki, starfsfólki Rapyd á Íslandi. Þá minntist hann sérstaklega á hvað það væri mikil neikvæðni í garð starfsfólks. Í fljótu bragði er ekki ljóst í hvað hann vísar þar af því aðgerðirnar hafa ekki beinst að starfsfólki.

Inni á Facebook-hóp BDS hefur það verið mikið til umræðu undanfarna daga að lógó Rapyd birtist ekki lengur á posum Verifone. Þegar gengið var á Verifone greindu þau frá því að það hefði verið gert að beiðni Rapyd. 

Þóra spurði Garðar út í það hvers vegna Rapyd hefði óskað eftir því að lógóið væri afmáð af posunum. Hann viðurkenndi að lógóið hefði verið fjarlægt í ákveðnum tilfellum en ekki öllum. Hann gat þó ekki fyllilega svarað því hvers vegna það hefði verið gert nema að það væru ákveðin fyrirtæki sem hefðu ekki áhuga á látunum í kringum sniðgönguna.

Við erum á virkum samkeppnismarkaði og þar af leiðandi fara sum fyrirtæki og önnur koma

Þess ber að geta að Garðar hefur ekki svarað fyrirspurn fréttastofu Vísis um það af hverju Rapyd bað Verifone um að fjarlægja lógó Rapyd af posunum. 

Hins vegar svaraði Garðar fyrirspurn fréttastofu um meinta lækkun á verðskrá en það hafa farið sögur af því að Rapyd hafi boðið fyrirtækjum sem vildu hætta í viðskiptum verulega bætt kjör. Í svari Garðars sagði hann engar breytingar hafa verið gerðar á verðskrá og hann gæti ekki tjáð sig um einstaka viðskiptavini.

„Við erum á virkum samkeppnismarkaði og þar af leiðandi fara sum fyrirtæki og önnur koma. Þannig er það nú. Við höldum áfram að þjónusta okkar viðskiptavin[i] hér eftir sem áður,“ sagði hann einnig í svarinu.

Fólk nýti þær aðferðir sem eru í boði til að mótmæla

Kona sem hefur tekið þátt í sniðgönguaðgerðum gegn Rapyd gefur lítið fyrir orð Garðars um að aðgerðirnar beinist að starfsfólki fyrirtækisins. Fólk sé einfaldlega að nýta þær fáu aðferðir sem það hafi til að mótmæla þjóðarmorði. Hún segir að það sé ekki hægt að neita því að fyrirtækið sé ísraelskt í ljósi þess hver eigandinn er. Yfirlýsingar hans hafi kynt undir sniðgönguna.

Eyrún Björk gefur lítið fyrir orð Garðars um að aðgerðir beinist gegn starfsfólki.

„Þetta er út af því að Arik Shtilman er skráður eigandi Rapyd. Það er ekkert til sem heitir Rapyd Ísland, það er bara Rapyd Europe og hann er stjórnarformaður þar. Það er þess vegna,“ segir Eyrún Björk Jóhannsdóttir, sem hefur tekið þátt í skipulagningu á sniðgöngu á Rapyd.

„Ég veit að forstjórinn er alltaf að reyna að svara þessu í aðsendum greinum í fjölmiðlum og það er ekki skrítið að hann sé að reyna að verja sitt fyrirtæki. Það er ekki verið að ráðast á starfsfólkið heldur er verið að nýta þær aðferðir sem við höfum til þess að mótmæla því að það sé verið að fremja þjóðarmorð. Það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Eyrún.

„Það er enginn að herja á íslenska starfsmenn en á meðan hann stendur við sín orð um að það megi eyða öllum á Gasa er skiljanlegt að fólk berjist gegn þessu fyrirtæki, finnst mér.“

Verður þessi sniðganga þá til í kjölfar orða Arik?

„Jú, maður fór að reyna að leita leiða til að reyna að gera hvað maður gat af því það er svo rosalega takmarkað hvað hver og einn getur gert í þessum aðstæðum nema hrópa út í tómið. En þetta er greinilega eitthvað sem virkar af því þau virðast finna fyrir þessu,“ segir hún.

Fjöldi fyrirtækja sem verið sé að sniðganga

Áður en vefsíðan Hirðir varð til tók Eyrún þátt í því að skrásetja hvaða fyrirtæki væru í viðskiptum við Rapyd. Hún segir að skipti fyrirtækja frá Rapyd til annarra færsluhirða séu ekki eingöngu tilkomin vegna sniðgöngu á Rapyd.

„Þegar ég byrjaði að senda pósta í nóvember-desember voru fyrirtæki sem höfðu núþegar verið að skipta um samninga og ekki endilega út af þessu heldur frekar af öðrum ástæðum, betri samningum annars staðar. En svo láta einhver fyrirtæki undan að lokum af því það eru svo margir að krefjast þess að fyrirtækin færi sig annað,“ segir Eyrún.

En það er ekki bara verið að sniðganga Rapyd?

„Nei, nei. Alþjóðahreyfing BDS bjó til lista sem var sendur út um það sem væri gott að sniðganga á Íslandi,“ segir Eyrún. Á þeim lista má sjá stórfyrirtæki á borð við Hälsans Kök, Moroccan Oil, Siemens, Rapyd, HP og Siemens.

„Það er mikill fókus á Rapyd af því þetta voru svo ljót ummæli sem fóru á miðlana,“ segir Eyrún

Fyrirtæki sem BDS - Ísland hefur lagt áherslu á að sniðganga.BDS

Nær ómögulegt að forðast Rapyd algjörlega

Eyrún segir að það sé þó ansi flókið að forðast Rapyd algjörlega enda noti flestir íslensku bankanna þjónustu Rapyd að einhverju leyti.

„Það eru í rauninni bara Íslandsbanki og Indó þar sem þú getur sniðið hjá þessu af því það eru einhverjar bakfærslur hjá bæði Landsbankanum og Arion í gegnum Rapyd,“ segir Eyrún.

„Þetta er svo flókið. Eins og hjá Landsbankanum, ég er með kort þar og það er eitthvað í bakendanum sem er unnið af Rapyd. Ég veit ekki hversu stórt hlutfall það er af því þeir gefa ekki upp samningana sem þau gera við færsluhirðinn, skiljanlega,“ segir hún.

Hin anginn á sniðgöngunni er þessi þrýstingur á fyrirtækin. Hvernig birtist hann?

„Við höfum verið að leggja mikla áherslu á að það sé gert á vinsamlegan hátt. Við bendum á að Rapyd er með forstjóra sem var með þessi ljótu ummæli, við styðjum ekki þjóðarmorð og spyrjum hvort þau hafi eitthvað hugleitt að skipta um færsluhirði,“ segir hún.

„Við höfum verið að leggja áherslu á að setja þetta svona fram. Það er enginn með einhverjar hótanir svo ég viti,“ segir Eyrún. „Á meðan finni fólk aðra leið til að borga en með korti eða önnur fyrirtæki til að versla við.“

„Maður sér allavega að þetta er að hafa einhver áhrif þegar maður sér auglýsingarnar og heyrir af því að þeir eru að bjóða betri samninga allt í einu. Þetta er að bíta greinilega,“ sagði Eyrún að lokum.

Endurnýjuðu samninginn og undirbúa nýtt útboð

Þó fjöldi fyrirtækja og stofnana hafi hætt viðskiptum við Rapyd þá á það ekki við um Ríkiskaup sem er einn stærsti viðskiptavinur færsluhirðisins. Alls eru 188 ríkisstofnanir bundnar því að versla innan samningsins sem Ríkiskaup endurnýjuðu á mánudag til eins árs.

Samningurinn var upprunalega gerður við Valitor um færsluhirðingu allra A-hluta stofnana og tók hann gildi 19. febrúar 2021 og gilti til tveggja ára með heimild til framlengingar tvisvar sinnum um eitt ár í senn. Samningurinn er nú á síðasta ári og unnið er að nýju útboði.

Hver er staðan á samningnum við Rapyd?

„Samningnum hefur verið framlengt og það er unnið að nýju útboði samhliða framlengingunni,“ sagði Sara Lind Guðbergsdóttir, forstjóri Ríkiskaupa, í samtali við blaðamann á mánudag.

Sara Lind Guðbergsdóttir, forstjóri Ríkiskaupa, segir að unnið sé að nýju útboði.Vísir/Vilhelm

Hvað var samningurinn langur?

„Samningurinn var til tveggja ára með möguleika á tveimur framlengingum til eins árs í hvort skipti. Þetta er síðasta framlengingin sem samningurinn á inni,“ sagði hún.

Verður þá farið í útboðið eftir ár?

„Nei, undirbúningur að endurútboði er hafinn þannig við stefnum að því að fara með nýtt útboð í loftið núna á vormánuðum,“ sagði Sara sem á von á því að unnið verði hratt og vel að útboðinu.

 Hann tekur samt við eftir að þessi samningur rennur út?

„Nei, það er uppsagnarheimild í samningnum. Það eru m.a. ákveðnar tæknilegar ástæður fyrir því að það var ekki hægt að fara strax í endurútboð. Það er verið að vinna að umbótum inni í Fjársýslunni, sem er framkvæmdaaðilinn, til þess að taka við bættum kerfum. Við þurftum að framlengja samninginn einu sinni og svo verður nýtt útboð á tímabilinu. Þannig ég á ekki von á því að við munum nýta allan tímann,“ sagði hún.

Þetta eru í rauninni allar ríkisstofnanir?

„Allar A-hluta-stofnanir, sem þurfa á færsluhirðingu að halda vegna starfsemi sinnar, eru bundnar af því að versla innan þessa samnings,“ sagði Sara. Samkvæmt ríkisreikningi er um 188 ríkisstofnanir að ræða, þar af eru tæplega 90 sem eru með veltu innan samningsins.

Það verður því forvitnilegt að sjá hvenær farið verður í nýtt útboð og hvort Ríkiskaup semji að nýju við Rapyd Europe eða hvort einhver annar færsluhirðir bjóði betur.


Tengdar fréttir

Straumur frá Rapyd til Adyen

Straumur, íslenskt fyrirtæki í greiðslumiðlun og dótturfélag Kviku banka, hefur skrifað undir samstarfssamning við fjártæknifyrirtækið Adyen um færsluhirðingu og vöruþróun á sviði fjártækni. 

Tenging við rússneskan ólígarka tafði kaup Rapyd á Valitor

Yfirtaka fjártæknifélagsins Rapyd á Valitor tafðist í meðförum fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands eftir að í ljós kom að einn stærsti eigandi Rapyd væri tengdur rússneskum ólígarka og samkvæmt heimildum Innherja var gerð krafa um að tengslin yrðu rofin. Einn af stofnendum Target Global lét af störfum undir lok síðasta árs. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×