Skoðun

Færri gæðastundir, fleiri vinnu­stundir

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir skrifar

Við gerð spurningakannana er mikilvægt að spurningar séu ekki leiðandi, það er að segja orðaðar þannig að aðeins sé hægt að túlka niðurstöðurnar á einn veg. Það er alveg sama hvort sá sem er spurður að því hvort hann sé hættur að berja konuna sína svari játandi eða neitandi - í báðum tilfellum felur svarið í sér að hann hann hafi einhvern tímann gert það. Nýleg könnun sem foreldrar leikskólabarna í Kópavogi fengu senda var gott dæmi um leiðandi spurningakönnun. Allar spurningarnar voru jákvæðar staðhæfingar sem foreldrar áttu svo að svara hversu sammála eða ósammála þeir væru.

Til dæmis var fólk beðið um að merkja við hversu sammála eða ósammála það væri fullyrðingunni um að breytingarnar hafi leitt til aukningar gæðastunda barnsins með fjölskyldu sinni. Aðeins 26% svarenda segjast sammála en 43% ósammála. Við vitum aftur á móti ekkert um það hvort þessi 43% eigi við að gæðastundum hafi fækkað hjá þeim, eða hvort tíðni þeirra sé óbreytt. Í öllu falli er mjög vafasamt að túlka niðurstöðurnar þannig að áhrifin séu jákvæð fyrir gæðastundir.

Ásdís fullyrðir að dregið hafi úr álagi og áreiti á börn eftir breytingarnar. Engu að síður eru aðeins 25,5% svarenda sem segjast sammála fullyrðingunni að breytingin hafi haft jákvæð áhrif á líðan barnsins, á meðan 75% svarenda segjast ósammála eða óviss. Við vitum ekki nema breytingin hafi jafnvel haft neikvæð áhrif á líðan barnsins þeirra. Þá segir Ásdís jafnframt að meirihluti foreldra telji sveigjanlega dvalartímann jákvæðan fyrir skipulag fjölskyldunnar. Raunin er sú að undir helmingur svarenda segir áhrifin jákvæð, 21% segja hvorki né og 30% segist ósammála fullyrðingunni að áhrifin séu jákvæð fyrir skipulag fjölskyldunnar.

Þá vekur athygli að aðeins 21% svarenda segja breytinguna hafa haft jákvæð fjárhagsleg áhrif á fjölskylduna, 19% hvorki né en 60% svarenda eru ósammála fullyrðingunni um að breytingin hafi haft jákvæð fjárhagsleg áhrif fyrir fjölskylduna.

„Breytingarnar hafa skilað góðum árangri. Ekki hefur þurft að loka leikskólum vegna manneklu” segir jafnframt í fréttatilkynningunni. Það er ekkert skrýtið, þar sem samhliða gjaldskrárbreytingunum var lögð alveg sérstök áhersla á að koma í veg fyrir það að senda þyrfti börn heim vegna lokana á innleiðingartímanum. Þannig var starfsfólk af menntasviði bæjarskrifstofanna sent til þess að hlaupa í skarðið og leysa af þegar starfsfólk vantaði til vinnu í leikskólunum.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér: http://tinyurl.com/kopkonnun

Höfundur er bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×