Innlent

Skjálfta­hrinan gæti bent til komandi neðan­sjávar­goss

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þorvaldur Þórðarson er eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson er eldfjallafræðingur. Vísir/Steingrímur Dúi

Eldgosafræðingur telur líkur á því að skjálftahrina við Eldey gæti verið fyrirboði eldgoss á næstu mánuðum. Gjósi neðansjávar yrði það sprengigos.

 Frá því að eldgosið þann 8. febrúar hófst hafa fjölmargir skjálftar mælst við Eldey sem er fimmtán kílómetra suðvestur af Reykjanesi. Nokkrir hafa mælst yfir þrír á stærð, sá stærsti 3,2.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að skjálftarnir hafi byrjað á tíu kílómetra dýpi en séu nú komnir mun nær yfirborðinu og eru á fjögurra kílómetra dýpi.

„Þessi skjálftavirkni gæti verið að gefa til kynna, eða er ein möguleg túlkun, að þarna sé að safnast kvika sem hefur byrjað að koma inn frekar djúpt og hefur verið að færa sig á minna dýpi. Það er ein túlkunin en hin er að þetta eru skjálftar á plötuskilum og ég held að við verðum bara að sjá og bíða hvað raungerist,“ segir Þorvaldur.

Klippa: Eldgosahrinan geti verið fyrirboði eldgoss á næstu mánuðum

Svipað afl

Komi til neðansjávareldgoss úti við Eldey yrði það sprengigos með einhverju öskufalli. Aflið í gosinu yrði svipað og í eldgosum síðustu ára á Reykjanesi.

„Þetta verður aldrei neitt voðalega mikið. Þetta yrði frekar takmarkað gjóskufall sem getur valdið einhverri truflun í kannski einn eða tvo daga vestast á Suðurnesjum. Síðan myndi þetta bara lognast út af eins og önnur gos og við höldum áfram,“ segir Þorvaldur.

Kerfið er komið í gang

Hann telur skjálftavirknina tengjast eldgosunum sem við höfum séð á Reykjanesi síðustu ár.

„Ég held að þetta sé sama kerfi, að því leytinu til er það tengt. Það kerfi er komið í gang og þá getum við fengum gos á öllum þessum gosreinum, hvort sem það er í Fagradalsfjalli, Sundhnjúkum, Eldvörpum eða Reykjanesi,“ segir Þorvaldur.

Ný eyja gæti myndast á svæðinu í neðansjávareldgosi.

„Eldey, hún er ein afleiðing af gosum þarna. Margir telja að hún hafi myndast í gosinu á þrettándu öldinni. Þannig það er alveg hugsanlegt að við fáum nýja eyju,“ segir Þorvaldur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×