Um­fjöllun og við­töl: Álfta­nes - Þór Þ. 94-104 | Þórsarar aftur á sigurbraut

Siggeir Ævarsson skrifar
Tómas Valur var drjúgur í kvöld og setti 20 stig
Tómas Valur var drjúgur í kvöld og setti 20 stig Vísir/Bára Dröfn

Álftanes og Þór Þorlákshöfn töpuðu bæði í síðustu umferð Subway-deildar karla. Þau mættust í Forsetahöllinni í kvöld og ljóst að bæði lið ætluðu sér að komast aftur á beinu brautina.

Heimamenn voru að hitta gríðarlega vel fyrir utan í fyrri hálfleik og leiddu með þremur stigum í hálfleik eftir að Tómas Valur setti flautuþrist og minnkaði muninn, staðan 53-50 og leikurinn galopinn fyrir bæði lið.

Gestirnir voru aftur á móti mun betri í seinni hálfleik og komu muninum upp í tíu í lok þriðja leikhluta. Jose Medina átti svakalega innkomu í leikhlutanum og bauð upp á létta skotsýningu meðan lykilmenn Þórs hvíldu sig á bekknum í nettum villuvandræðum.

Þegar um fimm mínútur lifðu leiks komu gestirnir muninum upp í 15 stig og reyndist það of stór biti fyrir heimamenn að kyngja. Álftnesingar áttu þó eitt áhlaup inni og komu muninum niður í fimm stig þegar 45 sekúndur voru eftir en Þórsarar stóðust það áhlaup og lönduðu sigri að lokum, 94-104.

Af hverju vann Þór?

Gestirnir spiluðu og hittu vel allan tímann. Heimamenn voru sjóðandi heitir í byrjun en náðu ekki að nýta sér hittnina til að kafsigla Þórsara sem voru alltaf handan við hornið og tóku síðan fram úr í seinni hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Álftanesi var var Hörður Vilhjálmsson stigahæstur með 19 stig en hann setti fimm þrista í tíu tilraunum. Norbertas Giga kom funheitur inn í sinn fyrsta leik á sínum fyrsta degi á landinu, 16 stig og sjö fráköst og þrír þristar í fjórum skotum.

Hjá gestunum var Nigel Pruitt mjög öflugur. 22 stig og tíu fráköst frá honum. Tómas Valur Þrastarson kom næstur með 20 stig og þeir Darwin Davis og Jordan Semple skoruðu báðir 16 stig.

Hvað gerist næst?

Sigur Þórsarar þýðir að þeir slíta sig frá Álftnesingum og jafna Njarðvíkinga að stigum í þriðja sætinu, en Njarðvík tapaði með 38 stigum gegn Grindavík í Smáranum í kvöld. 

Þórsarar taka á móti sjóðheitu liði Grindavíkur þann 8. febrúar og sama kvöld halda Álftnesingar einnig á Suðurlandið og sækja Hamarsmenn heim í Hveragerði.

Kjartan Atli: „Mótvindurinn eflir mann, það er bara þannig“

Kjartan Atli Kjartansson og hans menn í Álftanesi eru fegnir því að lengsti mánuður ársins sé að bakiVísir/Hulda Margrét

Álftnesingar máttu sætta sig við tíu stiga tap á heimavelli gegn Þórsurum í Subway-deild karla í kvöld, lokatölur 94-104. Heimamenn hittu frábærlega fyrir utan þriggjastiga línuna í fyrri hálfleik en það er sennilega ekki á hverjum degi sem lið endar í 47 prósent nýtingu fyrir utan en tapar samt með tíu.

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, átti þó skýringu á þessari útkomu.

„Þórsarnir hittu líka vel og tóku fleiri skot en við, þetta liggur svolítið þar. Tóku líka fleiri fráköst en við.“

Eftir að hafa lokað þriðja leikhluta með tíu stiga mun keyrðu gestirnir muninn svo upp í 15 stig þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Það reyndist einfaldlega of brött brekka fyrir Álftnesinga til að ná fótfestu í.

„Þeir settu stór skot á þeim kafla og náðu stoppum. Þeir eru náttúrulega frábærlega „drillað“ lið og við augljóslega að tjasla okkur saman í fjarveru tveggja lykilmanna og einn nýr sem lenti bara í dag. Þeir fundu einhverjar glufur á vörninni enda vorum við ekki búnir að setja hana almennilega upp með núverandi leikmannahóp og þeir gerðu bara mjög vel.“

Þessi nýi leikmaður er miðherjinn Norbertas Giga. Þrátt fyrir að hafa lent í dag var augljóst að hann kemur til landsins í keppnisformi, skoraði 16 stig og tók sjö fráköst á tæpum 25 mínútum.

„Hann náttúrulega var að spila í Kasakstan bara núna í janúar þannig að hann er í standi og kemur hérna inn til að hjálpa okkur.“

Kjartan var án tveggja lykilmanna í kvöld og þá bíður hann eftir að fá Róbert Sean Birmingham til landsins sem er að klára tímabilið vestanhafs.

„Róbert er nú bara að spila í kvöld úti í Bandaríkjunum, ég heyrði í honum í dag. Það gengur bara mjög vel og við sjáum hvernig honum gengur í úrslitakeppninni og óskum honum alls hins besta. Þetta er búinn að vera ansi erfiður janúarmánuður, ef ég segi bara alveg eins og er. Við höfum ekki náð tveimur leikjum í röð með fullskipaðan fremi hluta „róteringarinnar“.

Janúar 2024 bauð upp á fimm mánudaga og fóru Álftnesingar ekki varhluta af því og hefur hvert óhappið rekið annað hjá leikmönnum liðsins en Kjartan er þó bjartsýnn á lokasprettinn.

„Janúarmánuður er búinn að vera sérstaklega erfiður. Nú er Haukur frá, hann lenti í árekstri og það sáu það allir sem voru hér í kvöld að hann er stífur í bakinu og hálsinum. Þetta er búið að dynja svolítið á okkur.“

„En mótvindurinn eflir mann, það er bara þannig og við tökum helling af jákvæðum hlutum út úr þessum leik. Það voru menn sem áttu mjög flotta frammistöðu hér í kvöld og eins og þú segir, við hittum vel. Það er bara eðlilegt að við séum ekki búnir að negla allar varnar „róteringar“ og svo framvegis þegar við erum að fá nýtt akkeri í vörnina í kvöld. Auðvitað er hundleiðinlegt að tapa þessum leik og sóknarlega gerðum við vel. En Þórsararnir eru fjandi góðir og voru mjög einbeittir í kvöld.“

Lárus: „Við ákváðum að skrúfa vörnina aðeins upp í seinni“

Lárus Jónsson fer yfir málin með sínum mönnumVísir/Bára Dröfn

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, sagðist hafa fengið nett endurlit úr síðasta leik í upphafi þessa leiks en í seinni hálfleik small vörnin og þá þurfti varla að spyrja að leikslokum.

„Við vorum aðeins aðgangsharðari í vörninni. Við vorum kannski ekki nógu fastir fyrir fannst mér í fyrri hálfleik. Þeir gerðu reyndar bara vel. Settu oft frekar erfið skot, held að þeir hafi verið með hátt í 70 prósent þriggjastiga nýtingu. Við vorum komnir með hálfgerða martröð frá Hattarleiknum. Þannig að við ákváðum að skrúfa vörnina aðeins upp í seinni en svo vorum við bara hitta vel allan leikinn og hittum líka á fínan sóknarleik.“

Staðan í deildinni er afar jöfn en með þessum sigri slíta Þórsara sig aðeins frá Álftnesingum og þurfa heldur ekki að hafa áhyggjur af stöðu liðanna innbyrðis. Lárus sagði að staðan í deildinni væri ótrúlega jöfn og öll lið þyrftu nauðsynlega á sigrum að halda.

„Ég var nú bara að tala við Pétur Ingvars á leiðinni hingað, ég sagði: „Við verðum að vinna í kvöld“ og hann svaraði: „Við verðum líka að vinna í kvöld!“ og Kjartan Atli hefur örugglega hugsað: „Já við verðum að vinna í kvöld!“. Það verða allir að vinna. Þú sérð að þú ert með lið eins og Tindastól. Þeir gætu unnið fimm og bara tapað tveimur en ekki komist í úrslitakeppnina, þetta er svo rosalega jafnt.“

Hann gat tekið margt jákvætt út úr sigrinum.

„Það var ágætis flæði í sókninni. Menn settu stór skot. Jose kom náttúrulega með ákveðna sýningu fyrir okkur og þá kannski náðum við góðu forskoti. Við vorum í villuvandræðum en þá var bekkurinn að spila mjög vel hjá okkur. Þegar okkur helstu hundar, Dí, Jordan og Tommi voru út af, þá vorum við bara samt sem áður að spila vel, það er mjög jákvætt.“

„Baráttan var til staðar hjá okkur og við lokuðum bæði fyrsta og öðrum leikhluta mjög vel og þá líður manni oft betur.“

Lárus sagðist vera nokkuð bjartsýnn fyrir lokasprettinn, og vonaðist til þess að hans lið myndi njóta góðs af því að vera ekki að bæta við nýjum leikmönnum sem þyrftu tíma til að æfa og venjast nýju liði.

„Við erum kannski eitt af fáum liðum sem eru bara með sama liðið, vonandi græðum við eitthvað á því!“ 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira