Handbolti

Slóvenar leika um fimmta sæti eftir sigur gegn Dönum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Slóvenar unnu mikilvægan sigur í dag og leika um fimmta sæti EM.
Slóvenar unnu mikilvægan sigur í dag og leika um fimmta sæti EM. Stuart Franklin/Getty Images

Slóvenía mun leik um fimmta sæti Evrópumótsins í handbolta eftir óvæntan þriggja marka sigur gegn heimsmeisturum Danmerkur í dag, 28-25.

Danir höfðu þegar tryggt sér efsta sæti milliriðils 2 og sæti í undanúrslitum EM fyrir leik dagsins. Slóvenar voru hins vegar einu stigi á eftir Portúgal sem sat í þriðja sæti riðilsins og vegna innbyrðis viðureignar Slóveníu og Portúgal var ljóst að ekkert annað en sigur myndi tryggjá Slóvenum leik um fimmta sæti mótsins.

Þar sem Danir höfðu þegar fest sig í efsta sæti riðilsins gat liðið leyft sér að hvíla nokkra lykilmenn stóran hluta leiksins og slóvenska liðið nýtti sér það. Slóvenar voru með yfirhöndina stærstan hluta leiksins og leiddu með þremur mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 17-14.

Danska liðið byrjaði síðari hálfleikinn betur og náði fljótt tveggja marka forskoti. Þá bjuggust líklega margir við því að Danir væru komnir í gang og myndu sigla sigrinum heim, en Slóvenar gáfust ekki upp og komust yfir á ný í stöðunni 23-22.

Slóvenska liðið leit aldrei um öxl eftir það og vann að lokum sterkan þriggja marka sigur, 28-25.

Eins og áður segir tryggðu Slóvenar sér þriðja sæti milliriðils 2 með sigrinum og þar með leik um fimmta sæti mótsins. Danir enda hins vegar í efsta sæti, alveg sama hvernig leikur Svía og Norðmanna fer í kvöld, og leika til undanúrslita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×