Körfubolti

Á­nægður með ungu strákana í Njarð­vík: „Fannst þeir hálf­partinn bera þetta uppi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elías Bjarki Pálsson var með 23 stig í sigri Njarðvíkur á Stjörnunni í Garðabænum.
Elías Bjarki Pálsson var með 23 stig í sigri Njarðvíkur á Stjörnunni í Garðabænum. vísir/anton

Ungu strákarnir í Njarðvíkurliðinu fengu mikið hrós í síðasta þætti Subway Körfuboltakvölds.

Þeir Elías Bjarki Pálsson og Þorvaldur Orri Árnason skoruðu samtals 47 stig þegar Njarðvík sigraði Stjörnuna á útivelli á föstudaginn, 92-101.

„Þeir voru frábærir. Þeir eru svipaðar týpur, tveggja metra menn, langir íþróttamenn sem geta hreyft sig. Þeir spiluðu mjög vel og manni fannst þeir hálfpartinn bera þetta uppi. Vonandi fáum við meira af þessu,“ sagði Helgi Már Magnússon í Subway Körfuboltakvöldi.

Sævar Sævarsson er ánægður með að Elías hafi ekki koðnað niður eftir að Njarðvíkingar bættu við sig mannskap. En Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, heldur áfram að treysta á þennan nítján ára strák.

„Það hefði legið beinast við að það sé auðveldast fyrir Benna að bekkja hann. Menn hefðu getað vorkennt sjálfum sér en hann byrjar inn á og var stórkostlegur. Það sem við viljum ekki hjá núna er að mínútunum hans fækki. Hann var áræðinn og sótti á körfuna. Hann er fínn skotmaður. Þessu þarf að viðhalda,“ sagði Sævar. 

Klippa: Subway Körfuboltakvöld - Umræða um Elías og Þorvald

„Það er frábært að sjá að hann hafi ekki dregið sig í skel heldur sýnt að hann eigi heima í byrjunarliðinu,“ bætti Sævar við.

Njarðvík er í 5. sæti Subway deildarinnar með sextán stig, aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Vals.

Innslagið úr Subway Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×