Formúla 1

Kona Schumachers með strangar reglur um það hverjir geta hitt hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Schumacher smellir kossi á konu sína, Corrinu, eftir að hann varð heimsmeistari 2001.
Michael Schumacher smellir kossi á konu sína, Corrinu, eftir að hann varð heimsmeistari 2001. getty/Steve Mitchell

Eiginkona Michaels Schumacher stjórnar því hverjir geta hitt ökuþórinn fyrrverandi og er með strangar reglur í þeim efnum.

Á morgun verða tíu ár liðin frá því Schumacher lenti í skíðaslysi og hlaut alvarlegan heilaskaða. Lítið er vitað um ástand Schumachers en heilbrigðisstarfsfólk og fjölskylda hans annast hann á heimili þeirra í Sviss.

Ein ástæða þess hversu lítið er vitað um ástand Schumachers er hversu dyggilega fjölskylda hans stendur vörð um einkalíf þeirra. Samkvæmt fyrrverandi samherja Schumachers hjá Ferrari, Luca Badoer, stjórnar eiginkona hans, Corrina, því hverjir geta hitt hann.

„Aðeins fáir mega heimsækja hann. Corrina ákveður hverjir mega sjá hann,“ sagði Badoer.

„Fjölskyldan vill halda leynd um þetta og ég virði það. Þau gera allt með hans hag að leiðarljósi.“

Corrina og Michael gengu í hjónaband 1995. Þau eiga tvö börn saman, Ginu-Mariu og Mick sem hefur fetað í fótspor föður síns og ekið í Formúlu 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×