Skoðun

PISA og þróun ís­lenskunnar

Guðmundur Edgarsson skrifar

Seint á níundu öld numu hér land Norðmenn. Töluðu þeir tungumál sem kallast fornnorræna (e. Old Norse). Sú íslenska sem töluð er nú til dags er því í sínu upprunalega formi fornnorræna. Meðal helstu einkenna hennar er flókin málfræði og skringilegur orðaforði sem rekja má til bænda og sjómanna á víkingaöld.

Nokkru eftir landnám varð fornnorræna á Íslandi viðskila við þá mállýsku sem Norðmenn töluðu í Noregi því þá fór norska mállýskan ásamt þeirri dönsku og sænsku að þróast yfir í svokallaða miðnorrænu (e. Middle-Norse). Ástæðan var aukin alþjóðavæðing á hinum Norðurlöndunum. Þessi umskipti tóku nokkrar aldir.

Ísland einangrast

Það sem helst breyttist við þessi umskipti var gífurleg einföldun á málkerfi fornnorrænu. Málfræðileg kyngreining lagðist af og beygingarmyndum fækkaði verulega. Fyrir áhrif endurreisnarinnar tók síðar að bera æ meira á alþjóðlegum orðaforða, aðallega úr latínu og síðar ensku með iðnbyltingunni. Varð þá til ný mállýska, nýnorræna, sem í dag skiptist í norsku, sænsku og dönsku.

Á Íslandi hefur hin fornnorræna íslenska hins vegar lítið sem ekkert þróast í átt til einföldunar. Hún hefur heldur ekki opnað faðm sinn fyrir alþjóðlegum orðum. Ástæðan er einangrun landsins í árhundruð. Því er íslenska enn töluð með fornnorrænu sniði með öllu sínu þunglamalega beygingarkerfi og gamalgróna orðaforða. Þetta er hins vegar að breytast. Ástæðan er sú að netið og þá sér í lagi nettengdir snjallsímar hafa opnað slíkar flóðgáttir enskra áhrifa að engin dæmi eru um annað eins í gjörvallri málsögu Íslands. Sakir örsmæðar íslensks málsamfélags skellur þessi flóðbylgja svo á íslenskum ungmennum af mun meiri þunga en á þeim skandínavísku. Á ógnarhraða hefur því orðið sífellt erfiðara fyrir íslenska unglinga að fóta sig í hinu klossaða málkerfi móðurmálsins og hins forneskjulega orðaforða.

Íslenska verði ísl-enska

Birtingarmynd þessarar þróunar kemur einna skýrast fram í PISA. Þar fá skandinavísku krakkarnir að spreyta sig á textum sem ritaðir eru á vinalegu og léttmeltu nútímamáli þar sem enskublandinn orðaforði vinnur með þeim. Íslensku unglingarnir, hins vegar, þurfa að stauta sig í gegnum forna texta sem skrifaðir eru á stirðbusalegu bændamáli úr takti við alþjóðlega málþróun. Þessi leikur verður tæpast jafnaður fyrr en móðurmál íslenskra ungmenna verður ísl-enska, þ.e. íslenskt afbrigði nýnorrænu, sambærilegt í einfaldleika sínum og alþjóðlegu yfirbragði og nútíma skandínavíska.

Höfundur er málfræðingur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×