Handbolti

Sau­tján brottvísanir og þrjú rauð spjöld í hei­lögu stríði

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce í kvöld.
Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce í kvöld. Getty

Mikill hiti var milli liða og leikmanna þegar Kielce tapaði fyrir Wisla Plock í toppslag pólsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Dómarar leiksins veittu alls sautján tveggja mínútna brottvísanir og lyftu rauða spjaldinu þrisvar sinnum á loft. 

Liðin höfðu bæði tvö unnið alla deildarleiki sína fyrir þennan og því um að ræða toppslag tveggja langbestu liða deildarinnar í lokaumferð fyrri hluta mótsins. Mikill rígur hefur myndast milli liðanna í gegnum tíðina og þessi viðureign fengið viðurnefnið hið heilaga stríð (e. The Holy War). 

Leikurinn átti upphaflega að fara fram 11. nóvember en var frestað vegna þátttöku Kielce í IHF ofurbikarnum. Eftirvæntingin hefur því sjaldan verið meiri en í kvöld fyrir slag þessara liða. 

Leikurinn fór af stað með látum en gestirnir frá Wisla Plock leiddu með fjórum mörkum eftir fyrri hálfleikinn. Þegar þar var komið höfðu dómarar leiksins níu sinnum gefið leikmanni tveggja mínútna brottvísun og einu sinni lyft rauðu spjaldi. 

Wisla Plock héldu uppteknum hætti í seinni hálfleiknum og héldu heimaliði Kielce í öruggri fjarlægð en á lokamínútum leiksins misstu þeir tvo menn af velli samtímis og gáfu Kielce von. 

Heimamenn nýttu tækifærið vel og tókst að jafna leikinn, Wisla Plock fékk síðustu sókn leiksins og nýtti hana vel. Michal Daszek fékk boltann með tvær sekúndur eftir, vippaði honum yfir markvörðinn og vann leikinn. 

https://twitter.com/RasmusBoysen92/status/1737592759492755484

Ljóst er að liðin munu mætast aftur næstkomandi mars í seinni umferð deildarinnar. Einnig þykir ansi líklegt að það verði þessi tvö lið sem leika til úrslita um deildartitilinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×