Handbolti

Heimsmeistararnir komnir í undan­úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þórir Hergeirsson og norska kvennalandsliðið eru á leið í undanúrslit HM.
Þórir Hergeirsson og norska kvennalandsliðið eru á leið í undanúrslit HM. EPA-EFE/Enric Fontcuberta

Þórir Hergeirsson og norska kvennalandsliðið í handbolta tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum HM með sjö marka sigri gegn Hollendingum, 30-23.

Norska liðið, sem er ríkjandi heimsmeistari, mátti þola tap gegn Frökkum í lokaleik milliriðilsins um liðna helgi, en liðið mætti vel gírað í leik kvöldsins í átta liða úrslitum og náði fjögurra marka forystu um miðjan fyrri hálfleikinn í stöðunni 8-4.

Mest náði norska liðið fimm marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 12-7, en Hollendingar skoruðu seinustu fjögur mörk hálfleiksins og staðan var því 12-11 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Hollenska liðið náði að jafna í tvígang í upphafi síðari hálfleiks, en eftir það tóku norsku stelpurnar völdin og gerðu svo gott sem út um leikinn þegar enn var um stundarfjórðungur til leiksloka. Niðurstaðan varð sjö marka sigur Noregs, 30-23, og liðið er á leið í undanúrslit þar sem Danmörk eða Svartfjallaland verður mótherji þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×