Handbolti

Tveir leik­menn horfnir á HM kvenna

Sindri Sverrisson skrifar
Vicky Orchelle Nyamsi Pokop, Laeticia Petronie Ateba Engadi og Paola Cyrielle Ebanga Baboga mættu Svíum í gær án tveggja liðsfélaga sem hurfu rétt fyrir HM.
Vicky Orchelle Nyamsi Pokop, Laeticia Petronie Ateba Engadi og Paola Cyrielle Ebanga Baboga mættu Svíum í gær án tveggja liðsfélaga sem hurfu rétt fyrir HM. EPA-EFE/ADAM IHSE

Heimsmeistaramót kvenna í handbolta er í fullum gangi en eitt liðanna er ekki með fullskipaðan hóp þar sem að tveir leikmenn eru horfnir.

Leikmennirnir tveir eru frá Kamerún sem var því aðeins með fjórtán leikmenn á skýrslu í tapinu stóra gegn Svíþjóð í gærkvöld, 37-13.

Greint er frá hvarfi leikmannanna á vefnum Gohandball en ekkert saknæmt mun þó hafa átt sér stað. Samkvæmt kamerúnska blaðamanninum Leocadia Bongben ákváðu leikmennirnir sjálfir að yfirgefa landslið sitt rétt áður en HM hófst, og á kamerúnska handknattleikssambandið að hafa fengið staðfest að ekkert slæmt hafi komið fyrir þá.

Leikmennirnir, sem heita Bénédicte Manga Ambassa og Marianne Batamag, voru með í vináttulandsleik gegn Senegal 26. nóvember en sáust svo hvergi í fyrsta leik Kamerún á HM fjórum dögum síðar.

Bongben segir að hvarf leikmannanna þurfi ekki að koma á óvart. Á síðasta heimsmeistaramóti hafi nefnilega alls fimm leikmenn horfið, og lið Kamerún þurft að spila á ellefu leikmönnum í lokaleik sínum á mótinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×