Handbolti

Fimm­tán ís­lensk mörk er Magdeburg komst upp úr riðlinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði skoraði sjö fyrir Magdeburg.
Janus Daði skoraði sjö fyrir Magdeburg. @SCMagdeburg

Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon skoruðu samtals fimmtán mörk fyrir Evrópumeistara Magdeburg er liðið vann níu marka sigur gegn Porto og tryggði sér um leið sæti í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Eftir að hafa lent 2-0 undir náðu Evrópumeistararnir tökum á leiknum og náðu fljótt þriggja marka forystu. Sá var munurinn á liðunum út fyrri hálfleikinn og Magdeburg leiddi með þremur mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 16-19.

Gestirnir í Magdeburg náðu svo fljótt öruggri forystu í síðari hálfleik og það var í raun fljótt ljóst hvorum megin sigurinn myndi enda. Magdeburg vann að lokum öruggan níu marka sigur, 31-40, og tryggðu sér um leið sæti í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Janus Daði skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg og Ómar Ingi átta. Liðið situr í öðru sæti B-riðils með 16 stig af 20 mögulegum, tveimur stigum minna en Barcelona sem trónir á toppnum þegar fjórar umferðir eru eftir. Porto situr hins vegar í sjöunda sæti með sex stig, en efstu sex liðin tryggja sér sæti í útsláttarkeppninni og þar af fara efstu tvö beint í átta liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×