Körfubolti

Miklir peningar í boði fyrir NBA leik­menn í undan­úr­slitunum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo og félagar í Milwaukee Bucks eru sigurstranglegir í Las Vegas.
Giannis Antetokounmpo og félagar í Milwaukee Bucks eru sigurstranglegir í Las Vegas. AP/Morry Gash

NBA deildarbikarkeppnin er nú komin alla leið til Las Vegas borgar þar sem undanúrslitin fara fram í kvöld í nótt.

Í boði er vissulega sæti í fyrsta úrslitaleik keppninnar en það er líka miklir peningar í boði fyrir leikmenn liðanna.

Báðir undanúrslitaleikirnir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport 2. Klukkan tíu í kvöld hefst útsendingin frá leik Indiana Pacers og Milwaukee Bucks en klukkan tvö í nótt hefst síðan leikur New Orleans Pelicans og Los Angeles Lakers.

Þrjú af þessum fjórum liðum eru enn ósigruð í keppninni, hafa unnið fimm af fimm leikjum. Það eru Paces, Bucks og Lakers. Pelicans liðið tapaði fyrsta leiknum sínum í keppninni en hefur síðan unnið fjóra leiki í röð.

Verðlaunaféð er ekki af lakari gerðinni. Leikmenn þessar fjögurra liða hafa þegar tryggt sér hundrað þúsund Bandaríkjadali eða fjórtán milljónir íslenskra króna.

Leikmenn liðanna sem fagna sigri í kvöld og nótt eru öruggir með tvö hundruð þúsund dali eða tæpar 28 milljónir króna en leikmenn bikarmeistaranna tryggja sér síðan hálfa milljón Bandaríkjadala hver eða sjötíu milljónir íslenskra króna.

Þetta eru kannski engir gríðarlegir peningar fyrir súperstjörnur liðanna en eru upphæðir sem skipta aukaleikarana örugglega miklu máli.

Jose Alvarado hjá Pelicans segist sem dæmi ætla að gefa dætrum sínum verðlaunaféð sem hann fær út úr þessu móti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×