Formúla 1

Vakna upp við milljarðs þynnku eftir sögu­lega gott tíma­bil

Aron Guðmundsson skrifar
Christian Horner, liðsstjóri Red Bull Racing og Max Verstappen, ökumaður liðsins og heimsmeistari síðustu þriggja tímabila, fagna góðum árangri í Abu Dhabi í gær.
Christian Horner, liðsstjóri Red Bull Racing og Max Verstappen, ökumaður liðsins og heimsmeistari síðustu þriggja tímabila, fagna góðum árangri í Abu Dhabi í gær. Vísir/Getty

Red Bull Ra­cing, með Hollendinginn Max Ver­stappen í farar­broddi, bar höfuð og herðar yfir and­stæðinga sína á ný­af­stöðnu tíma­bili í For­múlu 1. Ver­stappen varð heims­meistari öku­manna og Red Bull Ra­cing heims­meistari bíla­smiða. Árangur og stiga­söfnun sem sér til þess að liðið mun þurfa að borga hæsta þátt­töku­gjaldið í sögu For­múlu 1 ætli það sér að vera á meðal kepp­enda á næsta tíma­bili.

Árangur Red Bull Ra­cing á ný­af­stöðnu tíma­bili var hreint út sagt ó­trú­legur. Liðið vann 21 af 22 keppnum tíma­bilsins og sankaði að sér 860 stigum í stiga­keppni bíla­smiða.

Ver­stappen tryggði sér sinn þriðja heims­meistara­titil á ferlinum löngu áður en tíma­bilið leið undir lok og endaði hann á toppi stiga­keppninnar með 575 stig, 290 stigum meira en liðs­fé­lagi sinn Sergio Perez sem tók annað sæti stiga­keppninnar.

Þessir yfir­burðir Red Bull Ra­cing á tíma­bilinu sjá hins vegar til þess að liðið mun þurfa að greiða 7,4 milljónir Banda­ríkja­dala í þátt­töku­gjald til Al­þjóða akstur­s­í­þrótta­sam­bandsins (FIA) ætli það sér að vera með bíla á rás­röðinni á næsta tíma­bili.

Liðsmenn Red Bull Racing gátu leyft sér að fagna vel og innilega í gær þegar að Formúlu 1 tímabilið 2023 leið undir lok.Vísir/Getty

Um­rætt þátt­töku­gjald er það hæsta sem eitt lið hefur þurft að borga í sögu For­múlu 1 en um ára­bil hefur reglu­verk FIA, varðandi þátt­töku­gjöld liða, verið á þá leið að það tekur að stórum hluta mið af stiga­söfnun liðsins í stiga­keppni bíla­smiða tíma­bilið á undan.

Reglu­verkið, sem sam­þykkt var og inn­leitt árið 2013, sér til þess að liðin í For­múlu 1 þurfa að greiða grunn­gjald upp á 500 þúsund Banda­ríkja­dali, rúmar 69 milljónir ís­lenskra króna, til þess að vera með lið í móta­röðinni. 

Ofan á það bætast síðan gjöld sem taka mið af stigunum sem liðið vann sér inn tíma­bilið á undan og er kostnaðurinn við hvert stig 5 þúsund Banda­ríkja­dalir, rúmar 690 þúsund ís­lenskar krónur. 

Þá þarf heims­meistari bíla­smiða hvers tíma­bils, í þessu tilviki Red Bull Ra­cing, að greiða 6 þúsund Banda­ríkja­dali eða því sem jafn­gildir tæpum 830 þúsundum ís­lenskra króna.

En líkt og ís­lenskt sam­fé­lag er For­múla 1 ekki undan­skilið þeim á­hrifum verð­bólgu. Því hafa þessi gjöld sem talin eru upp hér að ofan hækkað tölu­vert fyrir tímabil næsta árs. 

Grunn­gjaldið sem liðin þurfa að borga hefur því hækkað úr 500 þúsund Banda­ríkja­dölum upp í 657 þúsund Banda­ríkja­dali. 

Kostnaðurinn við hvert unnið stig er kominn vel yfir 6 þúsund Banda­ríkja­dali og nú þarf Red Bull Ra­cing að greiða yfir 7800 Banda­ríkja­dali fyrir að vera ríkjandi heims­meistari í keppni bíla­smiða.

Allt í allt þarf liðið því að reiða fram rúmar 7,4 milljónir Banda­ríkja­dala, rúman einn milljarð ís­lenskra króna, fyrir 10. Desember næst­komandi til þess að full­gilda þátt­töku­rétt sinn á 2024 tíma­bilinu í For­múlu 1.

Verstappen, besti ökumaður heims um þessar mundir, því verður ekki neitað.Vísir/Getty

Til saman­burðar er ljóst að liðin sem enduðu í öðru og þriðja sæti í stiga­keppni bíla­smiða, Mercedes (409 stig) og Ferrari (406 stig), munu þurfa að greiða ívið lægra gjald til þess að full­gilda þátt­töku­rétt sinn. Rúmar 3,3 milljónir Banda­ríkja­dala, eða um 455 milljónir ís­lenskra króna, er gjaldið sem Mercedes og Ferrari munu þurfa að greiða.

„Þetta er lúxus­vanda­mál,“ sagði Christian Horn­er, liðs­stjóri Red Bull Ra­cing, að­spurður um skoðun sína á þátt­töku­gjaldi liðsins fyrir næsta ár. „Þetta er ansi há á­vísun fyrir okkur að skrifa til FIA.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×