Körfubolti

„Ég á bara ekki til orð, þetta var skelfi­legt og við ættum að skammast okkar“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Halldór Karl Þórsson, þjálfari Hamars, var afar ósáttur með frammistöðu síns liðs í kvöld.
Halldór Karl Þórsson, þjálfari Hamars, var afar ósáttur með frammistöðu síns liðs í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Það var fokillur þjálfari sem kom til tals við blaðamann eftir 87-69 tap Hamars gegn Breiðabliks í Subway deild karla. Hamar er enn án sigurs í neðsta sæti deildarinnar eftir átta umferðir, þetta var fyrsti sigur Breiðabliks sem kom sér upp í 11. sætið. 

„Bara ömurlegar og ekkert annað“ sagði Halldór Karl aðspurður um almenna líðan sína og tilfinningar strax að leik loknum. 

„Við vorum bara með hausinn allt annars staðar, vorum að vorkenna sjálfum okkur afþví við vorum ekki að hitta rassgat og vorum ömurlegir. Þetta var skammarleg frammistaða“ hélt hann svo áfram. 

Hvað hefði þjálfarinn viljað sjá öðruvísi frá sínu liði í kvöld? 

„Setja boltann ofan í helvítis körfuna til að byrja með, ekki fara að grenja þegar þeir hitta ekki og hlaupa ekki til baka, það væri mjög gott. Þetta var bara lélegasta frammistaða sem ég hef upplifað á mínum þjálfaraferli. Ég á bara ekki til orð, þetta var skelfilegt og við ættum að skammast okkar.“

Hamar var án nokkurra lykilmanna í kvöld, Halldór taldi það þó ekki aðalatriðið. Nú verði liðið einfaldlega að taka sig saman í andlitinu og fara að sækja úrslit.

„Við vorum fáliðaðir en það skiptir engu helvítis máli, erum með fimm leikmenn á gólfinu sem þurfa bara að gera betur. Við erum að skjóta kannski 10% úr þristum en samt höldum við áfram að tjakka þeim upp. Þetta var bara skelfilegt og við þurfum að drullast til að líta djúpt inn á við og pæla í því hvað við þurfum að gera“ sagði Halldór að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×