Skoðun

Þótt þú sért ekki að vinna getur þú samt átt gott líf

Kristín Auðbjörnsdóttir skrifar

Vinna er stór hluti af lífi flestra og þar með óneitanlega partur af sjálfsmynd margra. Það að geta ekki tekið þátt í samfélaginu með vinnuframlagi getur því vakið upp margar tilfinningar.

Hér má sjá fyrsta orðið sem kom upp í huga nokkurra einstaklinga sem eru óvinnufærir vegna veikinda:

  • Kvíði
  • Hræðsla
  • Bugun
  • Þunglyndi
  • Sársauki
  • Einmanaleiki
  • Skilningsleysi
  • Þreyta
  • Sorg
  • Lífsskerðing
  • Ósanngjarnt

Minna virði en aðrir

Hvernig líður annars þeim sem dottið hafa út af vinnumarkaði?

„Það eru algjör forréttindi að fá að vinna við það sem maður elskar. Það er því ótrúlega erfitt að sætta sig við að brenna út í því og ég var viss um að það myndi aldrei gerast fyrir mig.”

„Þetta er hræðilegt. Ég er svo mikil félagsvera.”

„Ég upplifi mig minni máttar og er með mikla sektarkennd.”

„Það er mjög andlega erfitt að geta ekki unnið.”

„Mér finnst ég minna virði en aðrir.”

„Ég upplifi mig ekki taka þátt og vera byrði.”

„Mér finnst ég ekki vera hluti af samfélaginu.”

Við höfum eflaust líka flest heyrt einhvern tímann setninguna: ,,Svo erum við að borga skatta til þess að fólk sem nennir ekki að vinna geti fengið bætur.”

  • Það er svo sárt að heyra svona. Held að fólk átti sig ekki á því hvað það er erfitt að geta ekki tekið þátt í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Ég bara skil ekki að einhver haldi að þetta sé staðan.
  • Skemmtilegt að hafa heyrt þetta í tæp 30 ár. Ónytjungur og byrði á þjóðfélaginu. Ef maður gæti bara skipt.
  • Ég hef verið lengur á örorku en mig langar að muna. Bróðir minn sagði einmitt einu sinni við mig að vinnandi fólk gæti bara ekki haldið uppi öllum þessum öryrkjum.
  • Ég er búin að vera öryrki í rúm 23 ár á lúsara örorkubótum. Ég á eftir 10.000 kr. af peningunum mínum fyrir mat o.fl. þegar búið er að borga reikninga. Mín helsta þrá er að geta unnið. Ég skil ekki þetta “að nenna ekki að vinna”? Ég er reið.

Öðruvísi líf

Eins og við vitum eru rætur fordóma oft skilningsleysi. Mér varð hugsað til þess um daginn af hverju málefni á borð við veikindaleyfi, endurhæfingu og örorku eru lítið sem ekkert tekin fyrir í kennslu til dæmis, þegar verið er að fjalla um lífið og atvinnumarkaðinn? Hvaðan á skilningurinn annars að koma?

Það geta allir lent í því að missa heilsuna og fordómar eru ekki til þess að létta stöðuna. Sorg vegna langvarandi veikinda er raunveruleg og það er erfitt að þurfa að endurhugsa framtíðina vegna þessa, kyngja markmiðum og stolti. Vinna getur því miður ekki verið partur af lífi allra og sú umræða þarf líka pláss.

Þegar ég var langt niðri vegna minnar stöðu var ein sem sagði við mig hughreystandi að þótt ég væri ekki að vinna gæti ég samt átt gott líf, bara öðruvísi líf. Fyrir utan veikindin og skertar tekjur, fannst mér það góður punktur. Okkur langar öllum að líða vel og innst inni eru bara allir að reyna sitt besta.

Höfundur er móðir í endurhæfingu og stofnandi Instagramsíðunnar Lífið og líðan.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×