Skoðun

Van­skil eru að aukast – en ekki mikið enn­þá

Leifur Grétarsson skrifar

Það dylst engum að nú er þrengra um í efnahagslífinu en á sama tíma í fyrra. Verðbólga hefur aukist og vextir sömuleiðis og fyrirtæki jafnt sem heimili hafa þurft að þrengja mittisólarnar. Það þýðir að forgangsröðun í útgjöldum breytist, fólk þarf að taka ákvarðanir um hvaða liðir í bókhaldinu halda sér og hvar hægt er að skera niður.

Við hjá Motus höfum um nokkurra ára skeið haldið utan um upplýsingar um það sem við köllum greiðsluhraða hjá heimilum og fyrirtækjum, en með því er átt við það hve hátt hlutfall krafna eru greiddar á eindaga.

Ólíkt því sem margir bjuggust við jókst greiðsluhraði umtalsvert í Covid faraldrinum og náði hæðum sem við höfðum ekki séð áður. Fólk og fyrirtæki voru með öðrum orðum að greiða fleiri kröfur á réttum tíma.

Þessi aukni greiðsluhraði hefur haldist að mestu fram á þetta ár, en vísbendingar eru um að hann geti verið að gefa eftir. Greiðsluhraði hefur minnkað um 0,1% hjá heimilum og 0,2% hjá fyrirtækjum á þessu ári. Þetta er ekki mikil breyting í stóra samhenginu, en hún er markverð þegar við höfum í huga að þetta er í fyrsta sinn um stórt árabil sem greiðsluhraði minnkar.

Alvarleg vanskil aukast hjá fyrirtækjum

Það er einnig áhugavert að skoða tölur um alvarleg vanskil, þ.e. hlutfall krafna sem enn eru ógreiddar 45 dögum eftir eindaga. Árið 2019 fóru að meðaltali 2,5% af öllum kröfum viðskiptavina Motus í alvarleg vanskil, en hlutfallið er núna 1,4%. Á þessum tíma hefur kröfum í alvarlegum vanskilum fækkað um 47% hjá heimilum og 34% hjá fyrirtækjum.

Við tókum hins vegar eftir því í vor að alvarlegum vanskilum fyrirtækja fjölgaði í fyrsta sinn frá október 2020. Þetta er ekki mikil aukning enn sem stendur, en það er mikilvægt að fylgjast með þessari þróun.

Upplýsingar um greiðsluhraða og hlutfall krafna í alvarlegum vanskilum geta gefið mikilvægar upplýsingar um lausafjárstöðu íslenskra fyrirtækja og heimila og það sem meira er um vert þá verða þessar tölur nánast til í rauntíma og geta því haft ákveðið forspárgildi um framtíðina. Það er okkar von að þær geti gagnast bæði opinberum aðilum og einkageiranum í þeirra áætlanavinnu og geti jafnframt verið ákveðinn viðvörunarbjalla í samfélaginu, því ef greiðsluhraði minnkar óvænt mjög hratt, þá er það til merkis um að eitthvað sé að gerast sem bregðast þurfi við.

Höfundur er forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Motus.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×