Handbolti

„Eina sem Snorri setur mikla á­herslu á og við verðum bara að hlýða því“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson var sáttur með frammistöðu íslenska liðsins í gær.
Viktor Gísli Hallgrímsson var sáttur með frammistöðu íslenska liðsins í gær. Vísir/Hulda Margrét

„39 mörk, það er allt í lagi,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, eftir öruggan 39-24 sigur gegn Færeyjum í vináttulandsleik í gær.

„Þetta var bara mjög gaman. Gaman að spila í dag og þetta var skemmtilegur handbolti sem við vorum að spila,“ bætti Viktor við.

Sjálfur átti Viktor góðan leik og varði tuttugu skot í íslenska markinu, sem gerir 45 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hann segir gott samstarf með vörninni vera lykilinn að sinni góðu frammistöðu.

„Klárlega. Ég er með mjög gott samband við miðjublokkina, Arnar, Ými, Elliða og Arnar. Við vinnum þetta bara svolítið saman og það er ekkert mikið af einhverjum klikkuðum áherslum frá þjálfurunum nema bara að keyra boltann aftur í leik þegar við fáum mark á okkur. Við erum bara svolítið að fá að spila okkar leik.“

Íslenska liðið skoraði hátt í tuttugu mörk úr hraðaupphlaupum í leik gærkvöldsins og segir Viktor að það sé það sem koma skal hjá liðinu undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar, sem stýrði sínum fyrsta landsleik í gær.

„Ég held að það sé planið. Þetta er svolítið nútímahandboltinn og við verðum að aðlaga okkur að því. Það er gaman að spila svona.“

„Frakkar eru kannski með besta landslið í heimi og þeir eru að spila svona þannig við erum kannski bara að herma eftir þeim,“ sagði Viktor léttur. „Við erum bara að spila hratt og spila skemmtilegan handbolta.“

Þá segist hann eiga von á meira af því sama í dag þegar Ísland og Færeyjar mætast aftur í Laugardalshöllinni.

„Bara meira af því sama. Við megum ekkert slaka á í byrjun og við þurfum bara að koma okkur strax í gang og keyra hraðann upp.“

Hann segist einnig vera virkilega sáttur með það að liðið hafi haldið fætinum á bensíngjöfinni allan tíman þrátt fyrir að sigurinn hafi í rauninni verið kominn snemma í höfn í gær.

„Það er bara ekki annað í boði. Það er það eina sem Snorri setur mikla áherslu á og við verðum bara að hlýða því. Ef við fáum svona mikið frelsi til að spila okkar leik þá verðum við bara að halda áfram að keyra, keyra keyra. Það er það sem þjálfarinn vill og við gerum það bara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×