Skoðun

Nokkur orð um rafskútur

Hjalti Már Björnsson skrifar

Eins og umtalsvert hefur verið fjallað um síðustu daga er slysatíðni af rafskútum áhyggjuefni í samfélaginu. Við þurfum að skoða leiðir til að draga úr þessum slysum en í umræðunni þykir mér rétt að leggja áherslu á eftirfarandi:

  • Ein helsta ástæðan fyrir því að rafskútur eru nauðsynleg viðbót við samgöngur í þéttbýli á Íslandi er hversu takmarkaðar almenningssamgöngur eru í boði. Því held ég að sú bylting sem verður með tilkomu Borgarlínu muni fækka þessum slysum. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínunnar og annarra almenningssamgangna.
  • Umtalsverður hluti rafskútuslysa verða vegna ölvunar, þar er vandamálið áfengi, ekki rafskútan. Ég sé mörg sem slasa sig af því að ganga niður tröppur undir áhrifum áfengis, það er samt engin ástæða til að banna tröppur.
  • Ólíkt ölvunarakstri á bíl valda þau sem lenda í slysum á rafskútum sjaldnast áverkum á öðrum. Því er það mín skoðun að ekki sé réttlætanlegt að láta sömu refsingu liggja við ölvunarakstri bíls og að vera ölvaður á rafskútu. Þegar fólk hefur lent í líkamstjóni vegna rangra ákvarðana undir áhrifum áfengis ætti að styðja þau, ekki bæta við refsingu.
  • Ég er sammála því að takmarka hraða á öllum farartækjum þannig að ekki sé hægt að aka þeim hraðar en leyft er á hverjum stað. Hér yrði mesti ávinningurinn af því að hraðatakmarka bílana.
  • Fjöldi banaslysa í umferðinni á Íslandi náði hámarki árið 1977 þegar 33 létust. Síðan þá hefur fjöldi bíla og ekinna kílómetra á ári margfaldast, þrátt fyrir það hefur banaslysum fækkað niður í brot af því sem áður var. Samfélagið lærði á bílinn og þannig náðist slysatíðnin talsvert niður þó hún sé enn há. Hið sama er líklegt að gerist með rafskútur.
  • Samgöngumál þarf alltaf að skoða í víðu samhengi. Fyrir utan hræðilega slysatíðni vegna bíla veldur sá sem notar bíl sjálfum sér heilsutjóni með hreyfingarleysi en sjálfum sér og öðrum heilsutjóni með loftmengun. Áætlað er að tugir einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu látist á hverju ári vegna loftmengunar og grípa þarf til róttækra aðgerða til að auka loftgæði, rétturinn til að anda að sér hreinu lofti á að vera sterkari en réttur fólks til að keyra. Því verður að standa vörð um aðra samgöngumáta en bílinn, þar með talið rafskútur sem valda nánast engri mengun.
  • Bílar eru nauðsynlegir í dreifbýli og þeim sem búa við hreyfiskerðingu. Í þéttbýli eru almenningssamgöngur og reiðhjól besti samgöngumátinn.

Höfundur er yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×