Handbolti

Elliði Snær frá­bær þegar Gum­mers­bach gerði jafn­tefli við topp­liðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson á ferð og flugi með Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson á ferð og flugi með Gummersbach. Vísir/Getty Images

Gummersbach og Füchse Berlín gerðu jafntefli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Elliði Snær Vignisson fór hamförum í leiknum. Þá voru Íslendingar í eldlínunni í Danmörku og Frakklandi.

Nýliðar Gummersbach átti undir högg að sækja í fyrri hálfleik og voru fimm mörkum undir þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan þá 11-16. Í þeim síðari sneru heimamenn bökum saman og náðu að jafna metin, lokatölur 30-30.

Elliði Snær skoraði sex mörk í leiknum og gaf eina stoðsendingu fyrir lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar. Berlínarliðið er á toppi deildarinnar með 17 stig að loknum tíu leikjum á meðan Gummersbach er með 11 stig í 6. sæti.

Í Danmörku unnu Íslendingalið Ribe-Esbjerg og Fredericia leiki sína. Ribe-Esbjerg vann TTH Holstebro 32-29. Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson leika með liðinu. Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia unnu SAH 30-26. Einar Þorsteinn Ólafsson leikur með liðinu.

Í Frakklandi vann Nantes, lið Viktors Gísla Hallgrímssonar, fimm marka sigur á Dunkerque. Lokatölur 41-36. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og liðsfélagar í PAUC unnu góðan sigur á Limoges, lokatölur 35-32.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×