Skoðun

Björgunarþyrlu ætti að staðsetja á Akureyri

Friðrik Sigurðsson skrifar

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi þar sem kjarni bráðaþjónustu vegna slysa og sjúkdóma hefur færst að mestu á tvo staði. Annars vegar til Reykjavíkur á Landspítalann og hins vegar til Akureyrar á Sjúkrahúsið þar. Smærri staðir hafa takmarkaðri heilbrigðisþjónustu og því full þörf á að auka aðgengi á svæðinu að bráðaþjónustu sem björgunarþyrlur eru. Íbúum sem og ferðamönnum hefur fjölgað umtalsvert sem kallar á þyrlu og bætt öryggi á sitt hvoru landshorninu.

Reglulega hafa komið fram áform um að staðsetja eina þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri en af ýmsum orsökum hefur ekki orðið af því enn. Þörfin er og hefur verið lengi til staðar og því tímabært að staðsetja eina af þremur þyrlum Landhelgisgæslu á Akureyri. Nú hafa 17 þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu um varanlega og fasta starfsstöð á Akureyri fyrir björgunarþyrlu. Því ber að fagna og einsýnt að mínu mati að ríkisvaldið stígi þetta mikilvæga skref og staðsetji slíkt öryggistæki á Norðurlandi. Það mun dreifa áhættu í rekstri LHG og er einnig skynsamlegt gagnvart veðurfari. Staðsetning á Akureyri mun einnig efla öryggi sjófarenda, ferðamanna og íbúa á norður- og austurlandi.

Ég skora á íbúa og sveitarstjórnir á landinu öllu að senda áskorun á þingmenn og ráðherra að tryggja að þetta brýna verkefni verði ekki slegið af enn eina ferðina.

Þingmenn alla hvet ég til að samþykkja og afgreiða ályktun um þetta mál sem allra fyrst.

Næst þegar kemur „ÚTKALL F1“ á Norður og Austurlandi, þar sem þörf er á þyrlu gæti það skipt öllu máli hvort þyrla væri staðsett á Akureyri.

Höfundur er flugrekstrarfræðingur og Þingeyingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×