Um­fjöllun, viðtal og myndir: Haukar - Aftur­elding 27-23 | Haukar upp í þriðja sætið

Hinrik Wöhler skrifar
Adam Haukur Baumruk skýtur að marki.
Adam Haukur Baumruk skýtur að marki. Vísir/Pawel

Haukar sigruðu Aftureldingu í kvöld, 27-23, í sjöundu umferð Olís deildar karla. Leikið var á Ásvöllum og með sigrinum náðu heimamenn að lyfta sér upp í þriðja sætið á kostnað Mosfellinga sem sitja nú í því fjórða.

Haukar byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins en Mosfellingar skoruðu sitt fyrsta mark eftir fimm mínútna leik. Gestirnir fundu þó taktinn jafnt og þétt og var jafnt á flestum tölum framan af fyrri hálfleik.

Adam Haukur Baumruk skýtur að marki.Vísir/Pawel

Haukar sigu þó fram úr eftir rúmlega tuttugu mínútur. Guðmundur Bragi Ástþórsson, sem leiddi sóknarleik Hauka í leiknum, kom þeim í þriggja marka forystu eftir rúmlega tuttugu mínútna leik.

Mosfellingar fengu mörg góð skotfæri en áttu í mestum vandræðum að koma boltanum framhjá Aroni Rafni Eðvarðssyni í marki Hauka. Hálfleikstölur voru 14-11, Haukum í vil, en markvörðurinn var búinn að verja ellefu skot eftir 30 mínútna leik. Hann gerði gott betur og skoraði eitt mark yfir endilangan völlinn þegar gestirnir reyndu að spila sjö á sex undir lok fyrri hálfleiks.

Afturelding kom mun beittari til leiks í seinni hálfleik og með góðum varnarleik og hraðaupphlaupum í kjölfarið var staðan orðin 14-14 eftir þriggja mínútna leik í síðari hálfleik.

Að endingu tóku Haukar við sér og líkt og í fyrri hálfleik var jafnt á flestum tölum framan af. Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir reyndust Haukar sterkari aðilinn og nýttu flestar sínar sóknir á meðan Mosfellingar náðu ekki mynda glufur í vörn Hauka né koma boltanum framhjá Aroni Rafni.

Birkir Benediktsson í háloftunum.Vísir/Pawel

Leikurinn endaði með fjögurra marka sigri Hauka þar sem Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur með átta mörk fyrir heimamenn. Þorsteinn Leó Gunnarsson var markahæstur í liði Aftureldingar með sex mörk úr ellefu tilraunum.

Af hverju unnu Haukar?

Leikurinn gat dottið báðum megin enda tvö jöfn lið að eigast við. Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, reyndist Mosfellingum erfiður ljár í þúfu og var helsta ástæðan fyrir því að Haukar tóku stigin tvö í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og kom fram fyrir ofan var Aron Rafn Eðvarsson, markvörður Hauka, besti maður vallarins í kvöld með nítján skot varin.

Guðmundur Bragi Ástþórsson var fremstur meðal jafningja í sóknarleik Hauka en hann skoraði átta mörk gegn sínum gömlu félögum.

Leikmenn Aftureldingar að hefja sókn.Vísir/Pawel

Hvað gekk illa?

Færanýting Mosfellinga var ekki góð í kvöld, sérstaklega af hægri vængnum.

Afturelding reyndi að spila sjö á sex framan af leik en fengu iðulega ódýrt mark í bakið. Þeir náðu ekki að nýta færin og í kjölfarið skoruðu Haukar mörk í autt markið.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leiki í deildinni eftir rúma viku, fimmtudaginn 26. október. Afturelding mætir Gróttu á heimavelli í áttundu umferð Olís deildar karla. Á sama tíma fara Haukar á Hlíðarenda og taka á móti toppliði Vals.

Afturelding á þó leik í Evrópubikarkeppninni næsta laugardag á móti norska liðinu Nærbø IL. Mosfellingar þurfa að vinna upp fimm marka forskot frá fyrri leik liðanna.

Guðmundur Bragi: „Frekar klaufalegur leikur á báða bóga“

Guðmundur Bragi Ástþórsson leikmaður Hauka.Vísir/Pawel

Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæsti maður vallarins í kvöld með átta mörk. Hann var kátur með sigurinn í leikslok.

„Þetta var geðveikur sigur, mjög ánægðir með að vinna sterkt lið Aftureldingar. Þetta var frekar klaufalegur leikur á báða bóga, margir tapaðir boltar og einbeitingarleysi. Ég veit ekki hvað það var en við erum virkilega ánægðir með að vinna þennan leik. Vörnin var góð hjá okkur og Aron [Rafn Eðvarðsson] var stórkostlegur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vorum þéttir og oft þolinmóðir sóknarlega sem skilaði mjög sterkum mörkum,“ sagði Guðmundur Bragi eftir leikinn á Ásvöllum í kvöld.

Mosfellingar náðu aðeins að skora 23 mörk í leiknum í kvöld og var Guðmundur Bragi sérstaklega ánægður með varnarleikinn í kvöld.

Fast tekið á Guðmundi Braga Ástþórssyni leikmanni Hauka.Vísir/Pawel

„Munurinn lá í varnarleiknum, mér fannst bæði lið vera í smá vandræðum í sóknarleiknum en þetta voru hörku varnir sem voru spilaðar. Ég held þó að við vorum aðeins klókari og kraftmeiri í lokin.“

Guðmundur Bragi þekkir leikmenn Aftureldingar ágætlega en hann lék með liðinu ekki alls fyrir löngu þegar hann var á láni frá Haukum. Hann var spurður hvort það hjálpaði að þekkja vel inn á leikmenn mótherjans.

„Þetta eru allt frábærir gæjar og góðir í handbolta. Örugglega eitthvað í undirmeðvitundinni en það er ekkert sem ég pæli oft í. Það hafa allir spilað við alla margoft þannig við þekkjum allir hvern annan.“

Haukar sitja í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig þegar sjö umferðir eru búnar. Guðmundur telur að frammistaðan hafi farið vaxandi í síðustu leikjum.

„Ég er bara nokkuð ánægður hvar við stöndum núna en það var smá klúður í byrjun tímabils með fyrsta leikinn. Við erum búnir að vaxa mjög mikið og höfum unnið fjóra í röð sem við erum virkilega ánægðir með og það er ekki sjálfgefið,“ sagði Guðmundur að lokum.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skýtur að marki Hauka í kvöld.Vísir/Pawel
Haukar fagna sigri.Vísir/Pawel
Geir Guðmundsson sækir að vörn Aftureldingar.Vísir/Pawel
Ásgeir Örn Hallgrímsson er þjálfari Hauka.Vísir/Pawel
Geir Guðmundsson með boltann.Vísir/Pawel
Þorsteinn Leó sækir að marki.Vísir/Pawel
Blær Hinriksson að sleppa í gegn.Vísir/Pawel
Aron Rafn Eðarvsson átti frábæran leik í marki Hauka.Vísir/Pawel
Adam Haukur nærri búinn að klæða Þorstein Leó úr treyju sinni.Vísir/Pawel
Hávörnin hjá Haukum reynir að verja skot Birkis Benediktssonar.Vísir/Pawel

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira