Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Lúxemborg 32-14 | Öruggur sigur í fyrsta leik undankeppni EM

Kári Mímisson skrifar
Íslenska liðið átti ekki í neinum vandræðum með Lúxemborg í kvöld
Íslenska liðið átti ekki í neinum vandræðum með Lúxemborg í kvöld

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tók á móti Lúxemborg í forkeppni EM 2024 sem haldið verður Austurríki, Ungverjalandi og Sviss á næsta ári. Þetta var fyrsti leikur liðsins í riðlinum en ásamt Íslandi og Lúxemborg eru það Færeyjar og Svíþjóð sem mynda riðilinn. Svo fór að lokum að Ísland vann feikilega öruggan sigur á liði Lúxemborgar. Lokatölur 32-14 fyrir Ísland.

Sandra Erlingsdóttir skýtur að marki VÍSIR / PAWEL

Það sást fljótt hvað stefndi í á Ásvöllum en strax frá fyrstu mínútu mátti sjá hversu mikill munur væri á liðunum. Íslenska liðið skoraði fyrsta mark leiksins og var fljótlega komið yfir 5-1. Hægt og rólega juku íslensku stelpurnar forskot sitt en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 10-2 og öllum þeim fjölmörgu áhorfendum sem gerðu sér leið á Ásvelli í kvöld að Ísland færi með sigur af hólmi. Þrátt fyrir að íslensku stelpurnar létu reka sig aðeins oft út af fyrir klaufaleg brot þá skipti það litlu því lið Lúxemborgar átti í stökustu vandræðum með að koma boltanum framhjá Hafdísi Renötudóttur í marki Íslands. Elín Helga Þorsteinsdóttir fékk að spreyta sig í tveimur vítum í fyrri hálfleik og varði þau bæði ásamt því að verja frákastið frá Tinu Welter í annað skiptið. Staðan í hálfleik 19-7 fyrir Ísland í afar spennulitlum leik.

Andrea Jacobsen hleður í skot VÍSIR / PAWEL

Stelpurnar slökuðu aðeins á í seinni hálfleik sem er nú kannski ekki furða þegar munurinn er jafn mikill og raunin var. Lúxemborg skoraði fyrsta markið í seinni hálfleik en skoraði svo ekki mark næstu tíu mínúturnar eða svo. Íslensku stelpurnar stóðu vörnina mjög vel þar sem þær Hildigunnur Einarsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir fóru mikinn. Sóknarlega fór liðið illa með nokkur dauðafæri sem fyrirgefst alveg þegar liðið leiðir með meira en tíu mörkum.

Ísland - Lúxemborg Undankeppni EM kvennaVÍSIR / PAWEL

Varnarlega stóð liðið sig frábærlega. Ég get trúað því að það sé erfitt að standa vörnina jafn lengi og liðið þurfti að gera í dag en stelpurnar leystu það mjög vel í 60 mínútur.

Thea Imani keyrir á vörnina VÍSIR / PAWEL

Svo fór að lokum að Ísland vann 18 marka sigur. Lokatölur á Ásvöllum 32-14. Atkvæðamest í íslenska liðinu í dag var Sandra Erlingsdóttir með sjö mörk, þrjú úr vítum og 100 prósent skotnýtingu. Á eftir henni kom Þórey Rósa Stefánsdóttir með fimm mörk.

Hafdís Renötudóttir varði svo fimm skot (42 prósent) og Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 7 skot (50 prósent) þar af tvö víti eins og áður segir.

Hafdís Renötudóttir varði 5 skot í kvöld

Afhverju vann Ísland?

Stelpurnar voru bara einfaldlega miklu betri og gerðu þetta faglega. Varnarleikurinn var mjög góður í dag en það reyndist afar erfitt fyrir gestina að finna netið á löngum köflum.

Hverjar stóðu upp úr?

Engin sérstök sem var betri en önnur í dag. Ég hugsa að enginn leikmaður úr liði Lúxemborg kæmist nálægt íslenska hópnum. Fagmannlega gert hjá öllum þeim sem spiluðu í dag.

Hvað gekk illa?

Það kom auðvitað smá erfiðir kaflar í leiknum þar sem stelpurnar fóru illa með góð færi en það er bara eðlilegt þegar liðið leiðir með 10-15 mörkum. Liðið fékk á sig fullmargar brottvísanir en það kom ekki að sök.

Hvað gerist næst?

Ísland leikur næst gegn Færeyjum á sunnudaginn ytra. Það verður spennandi að sjá þann leik því færeyska landsliðið er í mikilli uppsveiflu og það má því reikna með mun erfiðari leik hjá stelpunum. Leikurinn hefst klukkan 14:00 á sunnudag.

„Erum allar að sigla í sömu átt“

Sunna Jónsdóttir keyrir upp völlinnVÍSIR / PAWEL

Sunna Jónsdóttir var að vonum ánægð eftir sigurinn gegn Lúxemborg í kvöld þegar hún mætti í viðtal að leik loknum.

„Ég er ótrúlega ánægð með okkur. Þetta var sterkur sigur þar sem við vorum auðvitað fyrirfram betra liðið. Ég er ótrúlega ánægð hvernig við komum inn í leikinn, fókuseraðar og einbeittar. Við ætluðum að gera þetta 100 prósent og það gekk upp í dag. Það er örugglega fullt sem má laga en ég er sátt með 18 marka sigur.“

Spurð út í það hversu mikið þessi leikur gefi liðinu í ljósi þess hversu mikill munur var á liðunum bendir Sunnu á að þetta hafi verið eitt skref í átt að EM sem liðið ætli sér að komast á.

„Við getum tekið fullt út úr þessum leik. Fullt af jákvæðum hlutum hjá okkur. Við erum allar að sigla í sömu átt. Við erum í undankeppni fyrir EM og við ætlum okkur að komast þangað. Þannig að góður sigur hjá okkur.“

Næsti leikur er gegn Færeyjum. Sunna segir að munurinn sé mikill á Lúxemborg og Færeyjum og telur að leikurinn á sunnudag verði baráttuleikur.

„Það er mjög mikill munur á þessum liðum. Færeyjar er lið á mikilli uppleið með sterka leikmenn og það verður alvöru barátta. Þær eru með flotta leikmenn og við höldum okkar vegferð áfram og vonandi fáum við góð úrslit þar líka.“

Sunna bar fyrirliðabandið í dag. Hvernig var tilfinningin að fá að leiða stelpurnar á völlinn í dag?

„Það var ótrúlega gaman og mikill heiður. Ég er mjög stolt. Við erum auðvitað fyrirliðateymi, ég, Þórey og Sandra. Ég er bara ótrúlega þakklát að fá að vera með bandið“ sagði Sunna að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira