Skoðun

1.500 líf í okkar höndum

Helgi Guðnason skrifar

Ef marka má umfjöllun síðustu vikna blasa við fjölda fólksflutningar frá Íslandi til Venesúela á næstu misserum.

Landið sem er oft efst á lista yfir friðsælustu lönd í heimi ætlar að flytja nauðug, börn, óléttar mæður og annað fjölskyldu fólk, til þess lands þaðan sem stærsti straumur flóttamanna í heiminum kemur.

Ekki vegna þess að hér sé einhver neyð, heldur af því hægt er að finna tölur sem gefa til kynna að neyðin þar sé örlítið minni.

Ekki nóg með það. Fólkið sem á að flytja burt er margt hvert öreigar því það kostaði aleigunni til að komast til Íslands, þau lögðu allt undir því Ísland tók á móti flóttafólki frá Venesúela.

Ísland hafði ákveðna sérstöðu hvað það varðaði, allir sem komu fengu hæli. Það má vel vera að einhverjir telji að það hafi verið röng afstaða, en við getum ekki firrt okkur ábyrgð á því fólki sem upplifði sig boðin til landsins.

Það eru hvorki náttúröfl sem við ekki ráðum við eða andlitslaust kerfi sem er á bakvið þennan harmleik.

Á Íslandi er fólk sem hefur það í hendi sér að afstýra þessu, á bak við hverja hælisumsókn sem synjað er eru manneskjur. Á bak við viðmið útlendingastofu er fólk sem samdi þau. Á bak við framkvæmdavaldið eru kjörnir fulltrúar sem geta gripið í taumana.

Það er fólk á bak við þá ákvörðun að endurskoða ekki þá einstæðu afstöðu Íslands að ástandið sé betra í Venesúela. Það er val að það skuli ekki gert þrátt fyrir niðurstöður rannsóknarnefndar Sameinuðu Þjóðanna að ástand mannréttinda sé að versna, þrátt fyrir yfirlýsingar Bandarískra stjórnvalda um að ástandið hafi ekki batnað, þrátt fyrir að nú nálgast fjöldi flóttamanna 8 milljónir - þá er fólk sem ákveður að ekki skuli bakkað með það að hælisleitendur frá Venesúela geti bara víst farið heim.

Að breyta um afstöðu til hælisleitenda frá Venesúela krefst ekki kúvendingar í málefnum hælisleitenda. Í ljósi þess að hér eru hundruðir sem komu landsins meðan stefna stjórnvalda var allt önnur, eru forsendur til að endurskoða afstöðu stjórnvalda. Í ljósi þeirra alþjóðlegu skýrslna sem út hafa komið frá því í mars þegar ÚTL gaf út sitt endurmat, eru forsendur til þess að endurskoða afstöðu yfirvalda.

Þaðkrefst ekki lagabreytinga að afstýra þessari hörmung - það þarf bara að uppfæra viðmið einnar stofnunar - að taka tillit til þess sem allar alþjóðlegar stofnanir virðast sammála um.

Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sál sinni?

Ég er ekki alveg viss hvaða sjónarmið liggja að baki þeirri afstöðu að einhvern vegin sé betra fyrir Ísland að vísa þessu fólki burt. En eru þeir sem að baki því standa virkilega sannfærðir um að það sé kostnaðarins virði?

Ef við stöndum hjá og segjum ekkert, berum við þá ekki líka einhverja ábyrgð? Það er ekki of seint að afstýra þeim harmleik sem blasir við, við höfum það í hendi okkar.

Höfundur er prestur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×