Handbolti

Sögulegur sigur strákanna hans Guðmundar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur gert góða hluti með Fredericia í Danmörku.
Guðmundur Guðmundsson hefur gert góða hluti með Fredericia í Danmörku. vísir/vilhelm

Danska handboltaliðið Fredericia, sem Guðmundur Guðmundsson stýrir, vann sögulegan sigur á meisturum GOG, 33-37, í Gudme í gær.

Þetta var fyrsti sigur Fredericia á GOG á útivelli í tuttugu ár. Með sigrinum komust strákarnir hans Guðmundar upp í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Fredericia hefur náð í ellefu stig í fyrstu átta umferðunum og er fimm stigum á eftir toppliði Álaborgar.

„Það var dásamlegt að fara héðan með tvö stig. Við sendum skýr skilaboð að við viljum blanda okkur í toppbaráttuna í vetur,“ sagði Kasper Young, leikmaður Fredericia, við TV 2 eftir leikinn í Gudmehallen.

Fredericia byrjaði leikinn betur og komst í 5-11 en staðan í hálfleik var jöfn, 17-17. Í seinni hálfleik voru gestirnir svo sterkari og lönduðu fjögurra marka sigri, 33-37. Einar Þorsteinn Ólafsson lék með Fredericia í gær.

Guðmundur tók við Fredericia fyrir síðasta tímabil. Þar komst liðið í undanúrslit um danska meistaratitilinn en tapaði fyrir Álaborg í oddaleik.

„Fyrir mig er þetta mjög skemmti­legt, að finna þetta forn­fræga fé­lag vera að koma til baka. Það er of­boðs­lega skemmti­legt en hefur tekið 43 ár. Þetta er langur tími en ég er stoltur af því að vera þátt­takandi í því að vera vekja risann. Ég er þakk­látur fyrir að hafa fengið þetta tæki­færi, að hafa verið treyst fyrir þessu verk­efni,“ sagði Guðmundur um árangur síðasta tímabils í samtali við Vísi.

Næsti leikur Fredericia er gegn Kolding á miðvikudaginn kemur. Strákarnir hans Guðmundar hafa unnið þrjá leiki í röð í dönsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×