Körfubolti

Framlengingin: Á að sameina Keflavík og Njarðvík?

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Strákarnir í Körfuboltakvöldi veltu fyrir sér sameiningu Njarðvíkur og Keflavíkur.
Strákarnir í Körfuboltakvöldi veltu fyrir sér sameiningu Njarðvíkur og Keflavíkur. Vísir/Stöð 2 Sport

Strákarnir í Körfuboltakvöldi reyndu að svara stóru spurningunum í Framlengingunni í þætti föstudagsins. Þar spurði Stefán Árni Pálsson, stjórnandi þáttarins, meðal annars um það hvort sameina ætti Keflavík og Njarðvík.

Í síðustu viku birtust fréttir af því að margir af hörðustu stuðningsmönnum Njarðvíkur væru farnir að velta fyrir sér möguleikanum á að sameina liðin tvö. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hugmyndin kemur upp og verður áhugavert að fylgjast með því hvort málið komist lengra en bara í hugmyndavinnu.

Ómar Örn Sævarsson og Helgi Már Magnússon voru sérfræðingar þáttarins á föstudaginn og fengu það erfiða verkefni að reyna að svara þeirri spurningu um hvort sameina eigi liðin.

„Nei. Ég myndi alveg skilja það að sameina yngri flokkana og ég held að það væri sniðugt upp á margt fyrir Reykjanesbæ,“ svaraði Ómar Örn.

„Gáfulegt væri auðvitað fyrir Reykjanesbæ að sameina upp á að halda utan um þetta, það væru fleiri einstaklingar í þessu og stærra batterí, en ég myndi ekki vilja láta sameina þetta bara út af sögunni. Ég vil halda Njarðvík og Keflavík.“

Helgi Már var hins vegar ekki sammála Ómari.

„Þetta hefur gengið hjá öðrum,“ sagði Helgi þegar Stefán Árni minntist á danska knattspyrnuliðið FCK.

„Þetta er endalaust í íþróttum verið að sameina hitt og þetta en það stoppar alltaf á sama hlutnum, sem er nafnið. Ég get ímyndað mér að þetta stoppi líka þar hjá Njarðvík og Keflavík. Þetta mun stoppa þar myndi ég giska á. En ég veit að Teitur [Örlygsson] hefur ákveðna skoðun á þessu máli og ég ætla bara að hoppa á hana. Honum finnst að það eigi að sameina og hann er einn af þeim sem er búinn að liggja í stjórn, þjálfun, yngri flokkum og öllum pakkanum. Ef Teitur segir að honum finnist eina vitið að sameina að þá ætla ég að hoppa á þann vagn,“ bætti Helgi við, en Framlenginguna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Framlengingin: Á að sameina Keflavík og Njarðvík?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×