Erlent

Ráð­leggja sýkla­lyf eftir ó­varið kyn­líf til að draga úr kyn­sjúk­dóma­smitum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Notkun doxycycline eftir óvarið kynlíf leiddi til 90 prósent fækkunar á klamydíu- og sárasóttarsmitum og 55 prósent fækkun á tilfellum lekanda.
Notkun doxycycline eftir óvarið kynlíf leiddi til 90 prósent fækkunar á klamydíu- og sárasóttarsmitum og 55 prósent fækkun á tilfellum lekanda. Getty

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur ákveðið að mæla með því að samkynhneigðir og tvíkynhneigðir karlmenn og trans konur taki sýklalyfið doxycycline eftir að hafa stundað óvarið kynlíf, til að draga úr líkum á kynsjúkdómasmiti.

Kynsjúkdómasmitum hefur farið fjölgandi í Bandaríkjunum og víðar, meðal annars á Íslandi en árið 2021 greindust 1,6 milljónir manna með klamydíu, 700 þúsund með lekanda og 177 þúsund með sárasótt.

Lekandagreiningum hefur fjölgað um 117 prósent frá því að þær voru fæstar árið 2009 og sárasótt var næstum horfin í Bandaríkjunum fyrir um 20 árum en greiningum hennar hefur fjölgað um 74 prósent frá 2017.

Kynsjúkdómana þrjá má alla rekja til bakteríusýkinga.

Ákvörðun CDC byggir á rannsóknum sem sýna að einn skammtur af doxycyline, sem tekinn er innan við 72 tímum frá óvörðum kynmökum, getur dregið verulega úr líkunum á kynsjúkdómasmiti.

Niðurstöðurnar þykja óyggjandi og hafa heilbrigðisstofnanir í San Francisco boðið upp á úrræðið í nokkra mánuði. Ferlið hefur verið þannig að einstaklingar fá afhent einhvern fjölda af töflum, með þeim leiðbeiningum um að taka eina innan þriggja daga frá óvörðu kynlífi.

Sérfræðingar hafa hins vegar bent á tvennt sem þarf að skoða í þessu samhengi; annars vegar það að tíðni smita er hæst meðal svartra og frumbyggja óháð kynhneigð og hins vegar að aukin sýklalyfjanotkun kann að stuðla að auknu sýklalyfjaónæmi.

Samkvæmt umfjöllun New York Times hefur doxycycline verið notað í marga áratugi og fátt bendir til þess að bakteríur hafi myndað ónæmi gegn lyfinu. Sárasóttar- og klamydíubakteríur verða sjaldan ónæmar yfir höfuð en fleiri spurningar eru uppi varðandi bakteríuna sem veldur lekanda, sem hefur myndað ónæmi gegn fjölda sýklalyfja.

Sérfræðingar segja aukið ónæmi munu velta á því hversu margir taka sýklalyfið í forvarnarskyni og hversu oft en á sumum svæðum, til að mynda í Mexíkó, hefur ofnotkun sýklalyfja leitt til fleiri tilvika sýklalyfjaónæmra baktería.

Til greina kemur að útvíkka ráðleggingarnar til fleiri en samkynhneigra og tvíkynhneigðra karlmanna og trans kvenna ef rannsóknir leiða í ljós árangur hjá öðrum hópum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×