Skoðun

Til hamingju kennarar!

Jónína Hauksdóttir skrifar

Í dag, fimmtudaginn 5. október, fögnum við Alþjóðadegi kennara og því er full ástæða til að óska kennurum um land allt til hamingju með daginn, í þeirri trú að þeir eigi góðan dag með nemendum og samstarfsfólki sínu í dag líkt og aðra daga. Í starfi þar sem kennarar gera sitt besta á hverjum degi við að mennta og móta bæði huga og hjörtu barna og ungmenna.

Það er mikilvægt að efla vitund samfélagsins sem við búum í um mikilvægi kennarastarfsins. Við kennarar erum best til þess fallin því við höfum menntað okkur til að geta sem best sinnt starfi kennarans með sérfræðiþekkingu okkar og fagmennsku. Starf kennarans er mikilvægt og það hefur áhrif á samfélagið á margvíslegan hátt. Hlutverk kennara er ekki eingöngu að kenna ákveðna þekkingu og færni heldur einnig að stuðla að almennum þroska, félagsfærni og sjálfstrausti barna og ungmenna. Kennarar hafaáhrif á menningu, gildi og viðhorf í samfélaginu, meðal annars með því að vera fyrirmyndir og með því að vekja áhuga nemenda sinna á því samfélagi sem við búum í.

Skýrt kemur fram í skólastefnu Kennarasambandsins að við kennarar höfum lykilhlutverki að gegna við þróun og mótun skóla og menntunar. Við búum yfir víðtækri sérfræðiþekkingu og reynslu á sviði kennslu, miðlunar og menntunar sem við eigum að miðla innan skólans sem utan; til nemenda, foreldra og samfélagsins alls.

Við kennarar eigum að vera óhrædd við að tala um og skrifa um starfið okkar. Við þurfum að segja frá stóru og litlu sigrunum, eins og þegar nemendur okkar ná tökum á nýrri þekkingu eða færni. Við þurfum að segja frá öllum þeim fjölbreyttu kennsluaðferðum sem við búum yfir svo við getum sem best mætt öllum þeim margbreytileika sem býr í nemendum okkar, stórum sem smáum.

Við kennarar eigum að leiða umræðuna í samfélaginu í stað þess að bregðast við þegar aðilar sem búa ekki yfir sömu þekkingu og við, fara að ræða um og taka ákvarðanir sem snerta, og hafa áhrif á okkar starf og starfsaðstæður.

Við kennarar eigum að sinna rannsóknum á sviði menntamála sem vekja athygli á öllu því vandaða og hugmyndaríka starfi sem fram fer í skólum landsins, á öllum skólastigum og skólagerðum.

Við kennarar erum stolt af okkar starfi, okkar samstarfsfólki og okkar nemendum. Því eigum við að vera óhrædd að segja frá okkar starfi, öllu því sem er spennandi og áhugavert, öllu því sem kveikir áhuga hjá nemendum okkar og opnar huga þeirra. Öllu því sem þroskar og eflir þekkingu þeirra, vitsmunaþroska og félags- og siðferðisþroska. Á þann hátt eflum við þekkingu samfélagsins á mikilvægi okkar starfs, ekki einungis í dag heldur alla daga.

#kennaravikan

Höfundur er varaformaður KÍ og fulltrúi í kennararáði.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×