Fiskifréttir greina frá tíðindunum og ræða við Finn Sigurbjörnsson, skipstjóra á Múlabergi frá árinu 2005.
Finnur segir engin uppsagnarbréf hafa borist áhöfninni sem telji líklega fimmtán manns með öllu. Vonandi muni Ísfélagið, sem á togarann, koma þeim fyrir á öðrum skipum.
„Ætli karlarnir fari ekki bara að líta í kring um sig eftir öðrum stöðum. Það fer eftir hvað stendur í bréfinu,“ segir Finnur við Fiskifréttir.
Kannski verði þeim komið fyrir á nýju Sigurbjörgu sem verið sé að smíða í Tyrklandi.
„Það hlýtur að þurfa að manna það skip.“
Tólf fengu uppsagnarbréf
Ólafur H. Marteinsson, aðstoðarforstjóri Ísfélagsins og framkvæmdastjóri útgerðar, segir tólf starfsmenn hafa fengið uppsagnarbréf í dag.
„Ástæða uppsagnarinnar er að þetta skip er orðið rúmlega fimmtíu ára gamalt. Það kom upp bilun í því sem við metum sem svo að svari ekki kostnaði að gera við. Þessi leiðinlega ákvörðun var eiginlega óhjákvæmileg,“ segir Ólafur.
Bilunin er í formi leka í afturskipinu sem Ólafur segir mjög mikið mál að gera við. Það sé töluverð ákvörðun að leggja skipi sem hafi þjónað fyrirtækinu vel en annað hafi ekki verið í stöðunni.
Óvíst um framtíð skipverjanna
Múlabergið hefur verið í rækjuveiði. Skipverjarnir eru héðan og þaðan af landinu en skipið gerir út frá Siglufirði.
„Við munum væntanlega ekki stunda rækjuveiðar aftur fyrr en með vorinu. En þetta hefur ekki áhrif á rækjuvinnslu sjálfa því við flytjum inn frá Noregi og Kanada.“
Skipið er fimmtíu ára gamalt og var eitt af flaggskipum flotans á sínum tíma. Nú er það einn elsti togarinn í flotanum að sögn Ólafs.
Óvíst er um framtíð skipverjanna á Múlabergi.
„Það er allavega ekkert fast í hendi með það. Það er verið að reyna að koma þeim í afleysingar til að byrja með á öðrum skipum. Það verða einhverjir sem fara tiltölulega fljótt í það, jafnvel í þessari viku. En það á alls ekki við um alla.“