Skoðun

Börn mega ekki falla á milli skips og bryggju

Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

Ég heiti Alma Ýr Ingólfsdóttir, ég hef starfað í sjö ár sem lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum og réttindum fatlaðs fólks á skrifstofu ÖBÍ. Ég býð mig fram til formanns ÖBÍ réttindasamtaka á aðalfundi samtakanna núna í október. Ég hef sýnt það í mínu starfi að ég get starfað og náð árangri í að vinna fyrir hagsmunum fatlaðs fólks. Á næstu dögum mun ég kynna mínar megináherslur nái ég kjöri sem formaður.

Megináherslur

  • Íslenskt stjórnvöld þurfa að grípa fyrr inn í hjá fötluðum börnum. Burt með biðlista og tryggjum að enginn dragist aftur úr.
  • Hvergi verði gefið eftir í þeirri kröfu að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna umréttindi fatlaðs fólks.
  • Besti árangur næst með góðri samvinnu og samtali við stjórnvöld, stofnanir og samfélagið. Við stöndum á staðreyndum og stefnumálum – en ekki í stríði. ÖBÍ þarf að starfa vel með sínum aðildarfélögum og hlusta á þeirra sjónarmið.
  • Inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkað er lykilatriði – með atvinnulífi og verkalýðshreyfingunni vinnum við gegn fordómum og með aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Í okkur felast tækifæri og ávinningur.
  • Skilningur stjórnvalda á fötlun innan skortir. Ósýnileg fötlun og langvinnir sjúkdómar virðast ekki teljast með. Því þarf að breyta.
  • Framfærsla er grundvöllur lífs. Við getum ekki sætt okkur við sem samfélag, aukna fátækt og stéttaskiptingu sem hefur áhrif á öll.

Fyrsta áherslumálið mitt eru málefni fatlaðra barna og ungmenna

Við þurfum að tryggja snemmtæka íhlutun fyrir börnin okkar og grípa inn í áður en í óefni er komið, tryggja tækifæri fatlaðra barna, ungmenna og ungs fólks til jafns við aðra. Við verðum að berjast gegn allt of löngum biðlistum og tryggja skilning á nauðsyn þjónustunnar, sem kemur í veg fyrir að börnin okkar heltist úr lest jafnaldra sinna. Slíkt hefur alvarlegar afleiðingar. Ólíðandi er að börn séu að bíða í allt að tvö ár eftir tiltekinni greiningu en eftir greiningu tekur við annars konar bið eftir viðeigandi þjónustu. Líðan, ástand og óvissa getur haft óafturkræfar afleiðingar fyrir börnin sem og fjölskyldur þeirra. Við eigum sögu um fötluð börn sem stjórnvöld sinntu ekki sem skildi og urðu síðar viðfangsefni annarra kerfa og samfélagsins. Við eigum ekki að samþykkja samfélag þar sem viðgengst að börn falli á milli skips og bryggju á endalausum biðlista eftir greiningu, eftir meðferð, eða viðeigandi stuðningi.

Höfundur er lögfræðingur og í kjöri til formanns ÖBÍ réttindasamtaka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×