Skoðun

Stór­tækar um­bætur í fangelsis­málum

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Framundan eru stórtækar umbætur í fangelsismálum hérlendis með það að markmiði að byggja upp fangelsi og fullnustukerfi sem sæmir nútímaþjóðfélagi, með bætt öryggi og aðstöðu til betrunar að leiðarljósi. Verkefnið er þríþætt; nýtt fangelsi á Litla Hrauni, fleiri fangapláss á Sogni og endurskoðun og stefnumótun fullnustulaga.

Nýtt fangelsi á Litla Hrauni

Fangelsið á Litla Hrauni er fyrir löngu orðið barn síns tíma enda komið til ára sinna, tekið í notkun árið 1929. Allar götur síðan hefur Litla Hraun verið stærsta fangelsi Íslands og sinnt mikilvægu hlutverki innan fullnustukerfisins.

Síðasta vetur ákvað Alþingi að setja rúma tvo milljarða í endurbætur á Litla Hrauni. Við nánari skoðun var talið skynsamlegra að byggja nýtt fangelsi frá grunni við hlið núverandi fangelsis. Með nýju fangelsi munum við færa alla aðstöðu í nútímalegt horf þar sem áhersla verður á að tryggja öryggi fanga og alls starfsfólks sem starfar á Litla Hrauni. Tryggt verður að nauðsynlegar endurbætur verði gerðar á Litla Hrauni á byggingartíma nýs fangelsis enda er stefnt að því að full starfsemi verði í fangelsinu á meðan á byggingartíma stendur.

Eins og staðan er í dag er ekki mögulegt að skipta fangahópum á Litla Hrauni upp með fullnægjandi hætti og getur það og hefur skapað mikla hættu auk þess sem ómögulegt er að hindra streymi fíkniefna og annarra ólögmætra muna inn í fangelsið. Einnig er vinnuumhverfi allra starfsmanna óviðunandi og mikilvægt að bæta það. Þá þarf fangelsisumhverfi að vera þannig að uppbyggilegt endurhæfingarstarf í samræmi við betrunarsjónarmið sé mögulegt. Því miður er það ekki raunin á Litla Hrauni.

Stækkun á Sogni

Á Sogni munum við fjölga plássum um 14 á næstu mánuðum. Með þessu erum við meðal annars að bregðast við ábendingum frá umboðsmanni Alþingi en í nýlegri skýrslu kom fram að staða kvenna í íslenskum fangelsum væri lakari en staða karla. Með breytingum á Sogni er verið að bæta stöðu kvenna í fangelsum og auka möguleika þeirra á að afplána í viðeigandi aðstæðum og með sambærilega möguleika til vistunar og karlar.

Endurskoðun fullnustulaga

Samhliða umbótum á innviðum fangelsiskerfisins verður farið í endurskoðun fullnustulaga með áherslu á betrun og nútímalega nálgun. Þá er umrædd endurskoðun tímabær í ljósi reynslu síðustu ára og aðfinnslna eftirlitsstofnana þingsins og alþjóðlegra eftirlitsstofnana. Við eigum ekki að sætta okkur við minna en nútímalegt fangelsi og fullnustukerfi sem sæmir nútímaþjóðfélagi.

Höfundur er dómsmálaráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×